Ólögmætt samráð olíufélaganna

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 12:36:11 (4011)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:36]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að í þessu máli er mjög mikilvægt að allir aðilar skoði sína réttarstöðu og það munum við vissulega gera fyrir hönd ríkisins sem ábyrgð berum á hagsmunagæslu fyrir þess hönd. Ég hlýt að vekja athygli á því að þetta mál er enn þá í meðferð og það er ekki komin endanleg niðurstaða í það. Ég sá ekki betur en að í áliti áfrýjunarnefndar samkeppnismála væri eilítið önnur niðurstaða, fljótt á lítið a.m.k., heldur en kom fram í upphaflegri niðurstöðu samkeppnisráðs varðandi ýmsar opinberar stofnanir, m.a. nokkrar þeirra sem hv. þingmaður nefndi.

Mér sýndist að staðfest hefði verið niðurstaða varðandi tilteknar stofnanir ríkisins, Landhelgisgæslu og dómsmálaráðuneyti en ekki aftur hvað varðar samráð um sölu eða skiptingu markaðar hvað varðar aðra aðila eins og Vegagerð, Íslandspóst, Landssíma og fleiri.

Ég hef ekki haft aðstöðu til að stúdera þetta álit enn sem komið er. Ég vil aðeins segja að við munum fara vel í saumana á því og kanna réttarstöðu okkar hvað þetta atriði varðar. En það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir enn um málarekstur eða þess háttar af ríkisins hálfu. Þar af leiðandi er ekki hægt að segja að hafinn sé undirbúningur að höfðun skaðabótamála eða þess háttar málareksturs. En það er mjög mikilvægt að fara vel yfir þetta og rannsaka nákvæmlega hvað þarna hefur gerst því að þetta er að sjálfsögðu alvarlegt mál fyrir ríkið eins og alla aðra sem hafa verið virkir á þessum mikilvæga eldsneytismarkaði á Íslandi.