Þróun á lóðaverði

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 12:54:58 (4020)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þróun á lóðaverði.

470. mál
[12:54]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft ákaflega athyglisverðu máli og sérstök ástæða til að þakka hv. málshefjanda fyrir það og hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargóð svör.

Eins og nú horfir mælist varla nokkur verðbólga hér á landi ef undan er skilin hækkun húsnæðiskostnaðar og það er sú hækkun sem síðan kallar fram hækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem hefur haft það í för með sér að gengi krónunnar hefur verið að hækka, útflutningsgreinunum og samkeppnisgreinunum til sérstakrar bölvunar og þar með atvinnulífinu á landsbyggðinni. Það er þá undarlegt að hugsa til þess ef stefna í lóðamálum tiltekinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er líka farin að hafa þessi áhrif þegar grannt er horft að það er síðan farið að valda verðbólguþrýstingi sem verður til þess að hækka gengi íslensku krónunnar og valda sérstökum búsifjum og vandræðum á landsbyggðinni. Þetta er auðvitað vítahringur sem verður að rjúfa. Ég hef hvatt til þess opinberlega og ég held að ekkert úrlausnarefni í íslenskri hagstjórn sé brýnna heldur en einmitt það.