Varðveisla gamalla skipa og báta

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 14:22:28 (4058)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:22]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

Hvað líður undirbúningi tillagna um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem hafa menningarsögulegt gildi, sbr. ályktun Alþingis frá 9. maí 2000?

Þingsályktun sú sem vitnað er til í fyrirspurninni er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Frú forseti. Þetta mál á sér lengri sögu. Upphaflega var það lagt fram sem frumvarp um Þróunarsjóð sjávarútvegsins af þingmönnum úr öllum flokkum undir forustu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Þessa máls er getið í skýrslu forsætisráðherra frá 128. löggjafarþingi þar sem hann fjallar um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis á 125. og 126. löggjafarþingi og segir þar um þessa ályktun Alþingis, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðuneytinu var falin framkvæmd ályktunarinnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar með bréfi dagsettu 20. nóvember árið 2000.“

Síðan eru nú nokkur vötn til sjávar runnin og meðal þess sem gerst hefur er það að Þjóðminjasafnið hefur gefið út safnastefnu. Í þeirri safnastefnu er hnykkt á því að Þjóðminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn þjóðminjavörslunnar, reki sömuleiðis sjóminjasafn, sem sé deild innan Þjóðminjasafnsins, það sé alhliða sjóminjasafn fyrir allt landið á sama hátt og húsasafn Þjóðminjasafnsins. Í safnastefnu Þjóðminjasafnsins kemur einnig fram stefnumarkandi beiðni eða ósk um það að stofnaður verði bátaviðgerðasjóður til að taka á brýnustu verkefnum sjóminjasafna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að hér á Alþingi höfum við tekist á um fjárveitingar til mála á þessu málasviði. Kannski hefur verið fyrirferðarmeiri umræða um verndun gamalla húsa og það hvernig Alþingi hefur í auknum mæli veitt fjármuni beint til ákveðinna verkefna án þess að það fari í gegnum húsasafn Þjóðminjasafnsins. Á sama hátt höfum við hér á Alþingi aukið fjárveitingar til endurbygginga á gömlum bátum og skipum. Nægir að nefna að samkvæmt fjárlögum ársins í ár og ársins í fyrra er það á fjórða tug milljóna sem Alþingi veitir beint til endurbygginga eða varðveislu á gömlum skipum og bátum. Það er alveg ljóst að hér vantar heildstæða stefnu og er það ástæða fyrirspurnar minnar til hæstv. ráðherra.