Íslenskukennsla fyrir útlendinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 15:20:27 (4083)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:20]

Herdís Á. Sæmundardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mikilvæga mál og tek undir að það er ákaflega brýnt að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. Ekki einungis í þeim tilgangi að gera þeim kleift að aðlaga sig betur að íslensku samfélagi, heldur ekki síður í þeim tilgangi að við getum nýtt þá krafta, hæfileika og þekkingu sem þessir nýju íbúar búa yfir og geta fært samfélagi okkar, bæði til að auka menningu okkar og ekki síður í því skyni að auðga atvinnusköpun og nýsköpun í atvinnulífinu.

Fram kom hjá hæstv. ráðherra að verið er að vinna að þessu máli. Ég hvet til þess að bæði námsefnisgerð fyrir útlendinga verði aukin mjög, sem og að kennaramenntun fyrir þá aðila sem kenna útlendingum verði efld.