Íslenskukennsla fyrir útlendinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 15:21:42 (4084)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:21]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn.

Mér er kunnugt um að námskeið eru í boði fyrir útlendinga um allt land á vegum símenntunarmiðstöðvanna. Það er hins vegar oft erfiðleikum háð að koma þeim á vegna þess að námskeiðin eru tiltölulega dýr vegna þess að víða eru fáir á hverjum stað sem geta sótt umrædd námskeið og verða þau þar með miklu dýrari en ella. Auk þess sem auðvitað er oft skortur á viðeigandi námsefni en það horfir nú að ýmsu leyti til bóta. Einn erfiðleikinn enn ef svo má segja er ef fólk kemur af fjarlægum málsvæðum þar sem hljóð eru allt önnur en í tungumáli okkar, ritmálið annað og tungumálið svo gjörólíkt að Íslendingar geta ekkert ímyndað sér það. Einn stærsti hjallinn á þessum vegi er einmitt kostnaðurinn. Þar tel ég að ríkið þurfi að koma til móts við (Forseti hringir.) einstaklingana að svo miklu leyti sem stéttarfélög gera það ekki.