Rekjanleiki kjöts

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 16:01:47 (4101)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Rekjanleiki kjöts.

402. mál
[16:01]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi reglugerðar um upprunamerkingar á kjöti. Gert er ráð fyrir að fyrst í stað verði settar reglur um nautakjöt til samræmis við gildandi reglur Evrópusambandsins en síðan reglur um fleiri dýrategundir til manneldis.

Þegar drög að reglugerð um upprunamerkingar voru til umsagnar komu fram athugasemdir frá Bændasamtökum Íslands og Landssamtökum sláturleyfishafa um nauðsyn þess að kanna betur framkvæmd mála hérlendis miðað við það ferli sem gert er ráð fyrir í drögunum. Það mál er nú til athugunar og úrvinnslu í ráðuneytinu. Ekki þykir þó ástæða til að fresta setningu reglugerðar um nautakjöt þar sem slíkar reglur gilda innan Evrópusambandsins og því æskilegt að hliðstæðar reglur gildi hér á landi. Engar slíkar reglur gilda hins vegar um aðrar kjötafurðir til manneldis innan Evrópusambandsins enn sem komið er.

Reglugerð um rekjanleika nautakjöts verður sett á næstunni og í framhaldinu reglur um aðrar kjötafurðir.

Hvað snertir þriðja lið fyrirspurnarinnar, um hvenær megi vænta þess að upprunamerkingar á innlendu kjöti skili sér á neytendaumbúðir, er því til að svara að gefa þarf framleiðendum tíma til aðlögunar að nýjum kröfum. Verður gildistaka reglugerðarinnar um upprunamerkingar látin taka mið af því í samræmi við framkvæmd hliðstæðra mála en gera má ráð fyrir að allt að 6–12 mánaða aðlögunarfrest þurfi frá því að reglugerðin verður gefin út.