Rekjanleiki kjöts

Miðvikudaginn 02. febrúar 2005, kl. 16:03:39 (4102)


131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Rekjanleiki kjöts.

402. mál
[16:03]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Það er mjög ánægjulegt að heyra að reglugerðin sé væntanleg. Ef ég nefni eingöngu nautakjötið eru tæp 10 tonn af nautakjöti flutt inn árlega núna, þ.e. leyfi eru fyrir því með tollkvótanum. Þetta er verulegt magn og það er þakkarvert að við skulum fylgja þeirri þróun sem hefur orðið innan Evrópu og er í gildi þar, þ.e. að hafa þennan rekjanleika. Sérstaklega er þetta af hinu góða þegar vart hefur orðið aukinna dýrasjúkdóma og smitvá er fyrir hendi.

Varðandi reglugerðina á kjöti innan lands vænti ég þess að eftir að þessi frestur sem eðlilegur er hefur verið veittur muni hæstv. umhverfisráðherra fylgja málinu eftir.