Endurskoðun á sölu Símans

Þriðjudaginn 08. febrúar 2005, kl. 16:05:51 (4278)


131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:05]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég má til með að koma hér upp á eftir hv. þm. Pétri Blöndal. Ég vil byrja á að þakka honum fyrir að taka þátt í umræðunni. Það má segja honum til hróss umfram aðra stjórnarþingmenn að hann kemur gjarnan hér til leiks þegar eftir því er kallað að eiga orðastað við stjórnarþingmenn og ástæða er til þess að þakka fyrir það.

Hins vegar fór hann með sína alkunnu möntru um samkeppnina og ágæti hennar og margt er hægt að taka undir í því að almennt getur það vissulega átt við að samkeppnin sé af hinu góða. En ekki á það nú alls staðar við. Ég hygg t.d. ekki að við fengjum ódýrustu vatnslagnirnar með því að leggja þær af mörgum fyrirtækjum í sveitarfélögum. Við fengjum heldur ekki ódýrasta skólpið ef við værum með margar skólplagnir lagðar af mismunandi fyrirtækjum í einu og sama sveitarfélaginu og ég held heldur ekki að við fáum ódýrasta dreifikerfið fyrir upplýsingar og sjónvarpsefni ef margir aðilar fjárfesta fyrir milljarða í svipuðum dreifileiðum. Við fengjum jú einhverja samkeppni á höfuðborgarsvæðinu. Við fengjum hana ekki í hinum dreifðu byggðum landsins. Einhver verður auðvitað að borga alla þessa fjárfestingu og það verða að sjálfsögðu neytendur. Ég tel að markaðurinn hér standi ekki undir allri þeirri fjárfestingu. Þar af leiðandi held ég að þessi samanburður við matvöruverslunina eigi alls ekki við. Við erum að tala hér um fjárfestingu af allt annarri stærðargráðu og að sjálfsögðu verða neytendur að borga brúsann.

Ég vil líka láta það koma fram að alltaf er til staðar tortryggni af hálfu fyrirtækja sem þurfa að kaupa þjónustu af fyrirtæki sem er í samkeppni við viðskiptavini sína. Það er t.d. fyrirtæki eins og Síminn, það er t.d. fyrirtæki eins og 365 netmiðlar eða hvað það nú heitir. Maður er hættur að geta talað um þetta fyrirtæki. Maður veit aldrei hvernig maður á að nefna það. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt að fyrirtæki eigi aðgang að einhverri dreifiveitu sem er hafin yfir þessa tortryggni.