Endurskoðun á sölu Símans

Þriðjudaginn 08. febrúar 2005, kl. 16:14:45 (4283)


131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:14]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu hefur hv. þingmaður aðra heimssýn en ég, ég hef löngu fallist á það. Ég hlusta á mál þingmannsins og viðurkenni rök hans og staðhæfingar með hliðsjón af heimssýn hans og rök hans og staðhæfingar eru réttar miðað við heimssýn hans. Við erum bara með mismunandi skoðanir og mismunandi heimssýn og ég vil gjarnan fá að hafa mína heimssýn í friði. Það er ekki þar með sagt að ég geti ekki hlustað á rök annarra manna eins og ég geri í þessari umræðu. Ég hef hlustað á alla umræðuna frá byrjun til enda og tek mið af og hlusta á þau rök sem koma fram og reyni að koma með rök á móti. Þannig er nú einu sinni umræða.

Varðandi það að við höfum haft lægsta kostnað í heimi, það var rétt, við vorum með lægsta kostnað í heimi nema til útlanda. Það var óskaplega dýrt að hringja til útlanda. Það var óskaplega dýrt að hringja til Íslands frá útlöndum. Ég man það sem námsmaður. Það var meiri háttar fjárfesting að hringja til Íslands og tók tvo klukkutíma að panta símtal á járnbrautarstöðinni í Köln. Þetta hefur breyst og ég er ekki viss um að íslenskir neytendur mundu vilja hafa fastlínusamband enn þá. Ég hugsa að íslenskir neytendur vilji gjarnan hafa GSM-símann sinn hvar sem þeir eru og þeir hafa einmitt valið það þrátt fyrir miklu hærri kostnað. Þeir vilja hafa þessa þjónustu. Þeir vilja eins og hv. þingmenn hér í salnum hafa sinn síma hjá sér. Og nú eru að koma í krafti samkeppninnar millilandasímtöl sem eru ókeypis. Ég veit ekki hvað getur verið ódýrara en það. Hvað getur verið ódýrara en það sem er ókeypis?