Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 08. febrúar 2005, kl. 17:39:09 (4305)


131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:39]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í bráðabirgðaákvæði VII, sem hv. þingmaður vitnaði í, kemur í næstu málsgrein á eftir þeirri sem hann lauk tilvitnun sinni á, með leyfi forseta:

„Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi.“

Við sjáum hvernig tilvitnun hv. þingmanns er í tímalegu samhengi, að þetta eru hlutir sem gerðust árla á síðasta áratug.

Síðan, varðandi bráðabirgðaákvæði XIX sem hv. þingmaður vitnaði til, sleppti hann því að vitna í ártalið í þeirri grein. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsráðherra skal fyrir lok fiskveiðiársins 1998/1999 láta kanna hvaða áhrif lögin hafi haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Skal ráðherra fyrir árslok 1999 leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem niðurstöður könnunarinnar verði birtar.“ (GAK: Hvernig er það með hin málin?)

Við sjáum líka í hvaða tímasamhengi þetta bráðabirgðaákvæði var sett. Ég tel mig meira að segja muna eftir skýrslunni sem þetta ákvæði vísar til.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er þetta vinna sem er stöðugt í gangi og þessi umræða í þinginu í dag er til vitnis um að hún er enn mjög lífleg.