Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 08. febrúar 2005, kl. 18:16:08 (4314)


131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:16]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég svo aldeilis hissa. Samkvæmt þeim lögum sem Þróunarsjóður starfar eftir er gert ráð fyrir að ef einhverjir fjármunir verði afgangs renni þeir til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram, bæði í þingsalnum í vetur, í fyrravetur og áður og eins það sem ég hef fregnað af fundum nefndarinnar, sjávarútvegsnefndar, hafa þingmenn hver um annan þveran talað um að auka þurfi fjármuni til hafrannsókna og talað um að Hafrannsóknastofnun hafi ekki næga fjármuni til þess að sinna verkefnum sínum. Núna þegar lítur út fyrir að fjárhagur Þróunarsjóðsins sé jákvæður og að einhver afgangur verði þannig að hægt sé að uppfylla lagaskyldu um hvernig ráðstafa eigi fjármununum, þá stekkur hv. þm. Jón Bjarnason til og vill fara að ráðstafa þessum fjármunum einhvern veginn öðruvísi, ekki að setja þá í Verkefnasjóðinn þar sem þeir eru þá í samhengi við aðra fjármuni sem er úthlutað til hafrannsókna, ekki að setja sjóðinn til Hafrannsóknastofnunar heldur til einhverra annarra sem eiga að vera í hafrannsóknum, ekki að setja hann í hafrannsóknir heldur til einhverra annarra hluta sem hann telur að sé þörf á innan sjávarútvegsins, ekki að það sé þá Hafrannsóknastofnun eða sjávarútvegsráðuneytið sem fari með hann heldur að honum sé ráðstafað af einhverjum öðrum aðilum. Var þá ekkert að marka það sem menn voru að segja hér, að þeir teldu að þörf væri á meiri fjármunum til hafrannsókna, að þörf væri á meiri fjármunum til Hafrannsóknastofnunar?

Sjónarmið mitt hefur verið að Hafrannsóknastofnun gegni ágætlega skyldu sinni, en það sé fullt af verkefnum, nánast óendanleg verkefni sem hún geti sinnt og mundu sóma sér vel á verkefnaskrá hennar og hún gæti uppfyllt mjög vel.