Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 08. febrúar 2005, kl. 18:56:53 (4329)


131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:56]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svo sem tekið undir með hæstv. ráðherra að það sé erfitt að treysta á hann og Alþingi varðandi fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar og þess vegna var þessi AVS-sjóður stofnaður. Þarna er gríðarlegt fjármagn tekið undan Alþingi sem fer í almenna ráðstöfun. Mér finnst því orð hæstv. ráðherra beinast fyrst og fremst að því að hann vantreysti Alþingi til að veita nægilegt fjármagn á fjárlögum til Hafrannsóknastofnunar. Undir þeim meiri hluta sem nú er get ég vel tekið undir að það sé ástæða til að vantreysta meiri hluta Alþingis til að ráðstafa á fjárlögum nauðsynlegu fé til rannsókna og þróunarstarfs og þá grípur hann í þetta haldreipi, eins og maður sem hefur dottið í vök og hangir á skörinni, til að ná í þetta fjármagn sem hér er um að ræða. Ég skil vörn ráðherrans en mér finnst hún ekki vera þingræðislega rétt. Ef hér væri vel að málum staðið tæki Alþingi á málum Hafrannsóknastofnunar eins og vera bæri.