Raforkuverð til garðyrkju

Miðvikudaginn 09. febrúar 2005, kl. 13:30:29 (4367)


131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:30]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra hvort til skoðunar sé í ráðuneyti hennar að mæta brýnni þörf garðyrkjunnar fyrir ódýrara rafmagn og sérstaklega í tengslum við ný raforkulög sem tóku gildi um áramótin, þar sem einingum í sölu við raforku var skipt upp í framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu.

Hægt er að halda því fram að ríkisvaldið hafi brugðist garðyrkjunni á liðnum árum, en sú stóriðja í grænmetisframleiðslu býr við miklu lakari kjör en t.d. stóriðjan í kaupum sínum á raforku. Framleiðsla á grænmeti og blómum byggist að mjög mikli leyti á notkun á rafmagni og hefur framleiðsla garðyrkjubænda margfaldast eftir að þeir tóku í þjónustu sína hvers konar lýsingu. Það var mjög sláandi frétt t.d. í Bændablaðinu á dögunum þar sem segir að garðyrkjubóndi á Melum á Flúðum, Guðjón Birgisson, borgi 3 milljónir í rafmagn á mánuði, 3 milljónir fyrir ylræktarstöð sína á Melum. Hann segir í fréttinni í Bændablaðinu að fyrir um tíu árum hafi garðyrkjubændur verið að lýsa miklu minna en nú noti þeir margfalt meira rafmagn og uppskeri og framleiði miklu meira, uppskerutíminn sé miklu styttri og þeir nái að framleiða miklu meira og betri vöru.

Raforkuverðið á að færa eins mikið niður og hægt er. Garðyrkjan er gjaldeyrissparandi hollustugrein. Hún er sannkölluð græn stóriðja. Það er ósanngjarnt að grein sem byggir að svo miklu leyti á raforku skuli lúta svo ósanngjörnum kjörum samanborið við erlenda stóriðju. Í leiðinni er verið að skekkja framleiðslustöðu grænmetis og blóma verulega í samanburði við erlenda vöru. Það er miklu betri og heilbrigðari leið að bjóða garðyrkjunni upp á ódýrara rafmagn eins og gerist og gengur til stóriðjukaupenda. Þar erum við að niðurgreiða með vissum hætti framleiðslu á áli og annarri stóriðju sem erlendir stóriðjuframleiðendur framleiða hér fyrir okkar raforku. Garðyrkjan kaupir rafmagnið á margfalt hærra verði. Fróðlegt væri að heyra frá hæstv. ráðherra, ef hún er með þær tölur á hreinu, hve munar miklu, en heyrst hefur að sá munur sé jafnvel þrefaldur eða fjórfaldur sem garðyrkjan þurfi að kaupa miklu dýrara rafmagn.

Finna verður leið til að lækka raforkuverð að mínu mati, annars lendir garðyrkjuframleiðslan í enn þá meiri vanda en nú er. Við eigum að byggja undir þessa grein, sérstaklega í ljósi breyttra laga þar sem fram hefur komið að lendi hækkanirnar á garðyrkjubændum er heilsársframleiðsla á grænmeti og blómum komin í taprekstur og þar með uppnám. Þessi tímamót sem felast í nýjum raforkulögum þarf að nota til að finna garðyrkjunni þann stað í fyrirkomulagi okkar að hún njóti sambærilegra kjara við kaup á rafmagni og erlend stóriðja gerir nú.