Listmeðferð

Miðvikudaginn 09. febrúar 2005, kl. 15:13:57 (4413)


131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Listmeðferð.

449. mál
[15:13]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil undirstrika að ég tel málið mikilvægt og ég tek undir að hlutverk listar og listsköpunar í lækningum, sérlega lækningum við andlegu ástandi. Það er áreiðanlega mjög veigamikið. Við munum sannarlega taka þetta til skoðunar í endurskoðun á lögum um heilbrigðisstéttir sem nú stendur yfir.

Ég hef í raun ekki ýkja miklu við það að bæta.

Varðandi það sem hv. 9. þm. Suðurk. sagði, varðandi fyrirspurn um Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum, þá er langt í frá að ég hafi neitað að svara. Það var ekki farið fram á að ég svaraði fyrirspurn um það í dag. Fyrirspurnarfresturinn er ekki liðinn. Það er verið að vinna að því máli af fullum krafti og jákvæðni. Ég veit að svar við fyrirspurninni verður tilbúið í næsta fyrirspurnatíma. Við erum að vinna að því máli af fullum krafti núna. Ég vil einnig láta það koma fram að það kom frétt á Stöð 2 um að ég væri mikill skussi að svara fyrirspurnum, ætti 37% af fyrirspurnum ósvarað. Þessi fyrirspurn er ein þeirra sem liggur hjá mér núna af nokkrum tugum. Ég tel rétt að láta það koma fram. Ég verð tilbúinn að svara hv. þingmanni þegar fresturinn verður liðinn eftir viku og mun sjá til að unnið verði að málinu af fullum krafti þangað til.