Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 12:35:51 (4647)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:35]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir að beita sér fyrir því að tryggja að ekki komi til sumarlokunar skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Vegna landfræðilegrar sérstöðu okkar Eyjamanna, er mikilvægt að sérstakt tillit sé tekið til öryggisþátta sem hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur haft að leiðarljósi við þessa ákvörðun. Ég fagna einnig þeirri ákvörðun að hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og hans fólk ætli að skoða vaktafyrirkomulag sérstaklega. Ég veit að hægt er að fá niðurstöðu í því máli í samvinnu við heimamenn. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja er öflug stofnun með mjög hæfu starfsfólki og hefur alla burði til að auka enn frekar þjónustu og taka til sín verkefni.

Með endurnýjun á 2. og 3. hæð stofnunarinnar er komin aðstaða sem er til fyrirmyndar en enn á eftir að ljúka framkvæmdum á skurðstofugangi. Jafnframt er komin göngudeild fyrir sykursjúka. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur bætt sérfræðiþjónustu mikið, gerð eru um 100 áreynslupróf á ári og 100 ómskoðanir fara fram á hverju ári. Það sparar heilbrigðiskerfinu á annað hundrað ferðir á ári til sérfræðinga í Reykjavík.