Trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 13:58:51 (4668)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka.

450. mál
[13:58]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Það kemur í ljós að þessi skipan er einstæð, bæði þegar maður tekur núverandi sendiherra — enginn þeirra gegnir trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokk — og að því er hæstv. utanríkisráðherra best veit hefur aldrei nokkurn tíma nokkur sendiherra Íslands gegnt trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokk meðan hann gegndi sendiherraembætti.

Ræða hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar um mannkosti Þorsteins Pálssonar er að sjálfsögðu virðingarverð og örugglega alveg rétt. En er það misskilningur minn, hæstv. forseti, að Þorsteinn Pálsson sé fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þessari nefnd? Að í þessari nefnd séu fulltrúar stjórnmálaflokkanna? Eru þeir bara þarna vegna þess að þeir séu hæfustu menn í landinu til að vera í þessari nefnd? Nei, það er auðvitað ekki svo. Þeir eru fulltrúar stjórnmálaflokkanna í viðkvæmum pólitískum málum, mjög mikilsverðum og viðkvæmum. Nú veit ég ekkert hvað fer á milli formanns Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa hans í hverri nefnd fyrir sig, það er sjálfsagt misjafnt eftir stjórnmálaflokkum og mönnum, en Þorsteinn Pálsson er skipaður í nefndina af formanni Sjálfstæðisflokksins. Allir líta á hann sem einn af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins enda verður hann auðvitað tekinn upp í því þegar þarf að ræða niðurstöður nefndarinnar og látinn svara fyrir sinn hlut að þeim málum eins og aðrir nefndarmenn.

Það er furðulegt að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli gera þetta og ég krefst þess að fá betri rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun hæstv. utanríkisráðherra að leyfa sendiherranum að taka þessari skipan formanns Sjálfstæðisflokksins, og ég spyr: Eru þá starfsmenn utanríkisráðuneytisins, sendiherrar og aðrir, almennt til frjálsrar ráðstöfunar fyrir stjórnmálaflokka, fyrirtæki, hagsmunaaðila og fólk á Íslandi af ýmsu tagi ef þeir eru mannkostamenn og sérstaklega ef þeir koma úr Sjálfstæðisflokknum?