Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 14:27:19 (4677)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

451. mál
[14:27]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fyrirspurn mín er af sama tagi og fyrirspurn Jóns Gunnarssonar nú síðast, þar sem hún varðar nákvæmlega sama þjóðveginn. Um það er spurt hver ökutími verði að jafnaði miðað við núverandi hámarkshraða — það var reyndar ekki tekið fram hér í fyrirspurninni en ætli ráðherra hæstv. miði ekki við löglegan hraða í svari sínu — á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins eftir tvöföldunina. Til glöggvunar höfum við tekið Umferðarmiðstöðina í Reykjavík, sem nú stendur, sem punkt á höfuðborgarsvæðinu.

Í öðru lagi er spurt hvaða tillögur og hugmyndir hafa verið athugaðar á vegum ráðherrans eða í stofnunum sem heyra undir hann um að stytta frekar umræddan ökutíma.

Einn möguleikinn kom auðvitað fram í fyrri fyrirspurninni. Það er hægt með því að breyta hámarkshraða og búa veginn kannski betur, minnst var á vegrið. Fróðlegt væri að vita, þótt ég ætlist ekki til að fá svar við því núna, hvað slík framkvæmd mundi kosta á Reykjanesbrautinni.

Síðan koma til greina aðrar aðgerðir og ráðstafanir, þá kannski einkum eftir að komið er til Hafnarfjarðar á þessum vegi eða þangað til við förum út á hann, eftir því í hvora áttina er litið. Þar er t.d. um að ræða framkvæmdir í Garðabæ, Hafnarfirði og síðan t.d. Öskjuhlíðargöng sem menn hafa rætt hér um á síðasta spelinum á leiðinni að Umferðarmiðstöðinni.

Það þarf ekki að orðlengja það við þessa umræðu að Reykjanesbrautin, eða Keflavíkurvegurinn eins og hann hét þegar við vorum ung, er einhver mikilvægasti þjóðvegur landsins og mikilvægi hans vex stöðugt vegna þess að þeir á Suðurnesjum eru nú að eflast og styrkjast. Keflavík er í raun orðin eitt hornið í höfuðborgarþríhyrningnum sem á sér á öðrum hornum Akranes og Selfoss, nokkurn veginn. Sýnt er að hlutverk Keflavíkurflugvallar á eftir að aukast verulega á næstu árum, bæði sem alþjóðaflugvallar og hugsanlega sem innanlandsflugvallar. Þótt gott, þarft og fagurt sé að bæta samgöngur vestra, nyrðra, eystra, og hvaða átt sem menn vilja nefna í því sambandi, þá er mikilvægast að efla samgöngurnar þar sem þær eru mestar, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem maður miðar við Reykjavík sjálfa, höfuðborgarsvæðið þrengra, sem er þá Reykjavík og hin hefðbundnu nágrannasveitarfélög, eða höfuðborgarþríhyrninginn sem ég nefndi hér áðan.

Ég tel að þetta eigi að vera eitt helsta verkefni samgönguráðherra, ekki bara núna, heldur næsta áratuginn, að sjá til þess að samgöngur í þessum þríhyrningi gangi eðlilega, og einn mikilvægasti öxullinn innan hans er að sjálfsögðu frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.