Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 14:30:27 (4678)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

451. mál
[14:30]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason spyr:

„Hvað er áætlað að ökutími verði að jafnaði langur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins, t.d. miðað við núverandi Umferðarmiðstöð í Reykjavík, eftir að Reykjanesbraut hefur verið tvöfölduð?“

Svar mitt er þetta: Leiðinni að Keflavíkurflugvelli má skipta í þrjá áfanga:

a) Frá Umferðarmiðstöð að Krýsuvíkurvegi sunnan um þéttbýlið í Hafnarfirði eru um 14 km. Ferðatíminn er um 14 mínútur nema á háannatíma síðdegis þegar ferðatíminn getur orðið nokkuð lengri, svo ekki sé meira sagt.

b) Frá Krýsuvíkurvegamótum að Njarðvíkurvegamótum eru um 28 km. Ferðatími miðað við leyfðan hámarkshraða, 90 km á klst., er um 19 mínútur fyrir þá sem kjósa að fylgja hámarkshraðanum sem ætti að vera mögulegt eftir að allur kaflinn hefur verið tvöfaldaður.

c) Frá Njarðvíkurvegamótum að flugstöð eru um 8 km. Á þeim kafla eru nokkur gatnamót og leyfður hámarkshraði ýmist 70 eða 90 km á klst., ferðatími 6 mínútur. Ferðatími alla leiðina, sem er 50 km löng, verður samkvæmt ofansögðu u.þ.b. 39 mínútur.

Í annan stað spyr hv. þingmaður:

„Hvaða tillögur og hugmyndir hafa verið athugaðar um að stytta frekar umræddan ökutíma?“

Á kaflanum frá Umferðarmiðstöð suður fyrir þéttbýlið eru ekki fyrirhugaðar ákveðnar framkvæmdir á samgönguáætlun á næstu árum sem hafa áhrif á ferðatímann ef frá eru taldar framkvæmdirnar við Fjarðarbraut og Reykjanesbraut í Hafnarfirði sem nú er að ljúka. Hins vegar mun umferð tvímælalaust aukast á leiðinni, m.a. með uppbyggingu Sjálandshverfis í Garðabæ sem mun auka ferðatíma eitthvað.

Kaflinn frá Krýsuvíkurvegi að Njarðvíkurvegi mun uppfylla kröfur sem gerðar eru í vegstöðlum fyrir hámarkshraða allt að 110 km á klst. þó að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort hámarkshraðinn verði hækkaður.

Hækkun ferðahraða úr 90 km í 100 km á klst. á þessari leið styttir ferðatímann um tæpar tvær mínútur og frekari hækkun ferðahraða úr 100 í 110 km mundi stytta ferðatímann um u.þ.b. eina og hálfa mínútu.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um hækkun leyfilegs hámarkshraða á þessari leið eins og fram kom í svari mínu við annarri fyrirspurn. Kaflinn frá Njarðvíkurvegamótum að flugstöð verður óbreyttur í náinni framtíð hvað ferðatíma varðar.

Það er því alveg augljóst, eins og ég sagði í svari mínu áðan, að þær fáu mínútur sem gætu sparast skipta engum sköpum um ferðalög hér á milli frá því sem nú er. En eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, Merði Árnasyni, er þetta geysilega mikilvægur leggur í samgönguneti okkar og samgöngukerfi og þess vegna hef ég lagt ríka áherslu á að bæta þær samgöngur. Tvöföldun Reykjanesbrautar breytir engu um að innanlandsflugið þarf á því að halda að vera sem næst meginsstarfsstöðvum á Reykjavíkursvæðinu, meginmiðstöð stjórnsýslu og sjúkrahúsþjónustu og öllu því. Það er því afskaplega heppilegt að flugvöllurinn sé staðsettur eins og hann er og er afskaplega mikil búbót fyrir landsbyggðina og skiptir mjög miklu máli og ég held að ástæða sé til að fagna því sérstaklega að á Alþingi skyldi nást þverpólitísk, víðtæk sátt um fjárveitingar til endurbyggingar Reykjavíkurflugvallar og endurbóta, lagfæringa á umhverfi hans þannig að til mikilla breytinga horfir og hefur horft. Mikil bragarbót hefur orðið þar og ber að fagna því, enda þurfti höfuðborgin á því að halda að svæðið yrði lagfært og Reykjavíkurflugvöllur yrði betri starfsstöð fyrir innanlandsflugið.

Þessi fiskur lá undir steini fyrirspurnarinnar, að fá tækifæri til þess að vekja athygli á stöðu Reykjavíkurflugvallar.