Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 14:47:09 (4686)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[14:47]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Í fyrsta lagi er spurt:

„Hve oft hefur flug til Ísafjarðar fallið niður sl. fimm ár, skipt niður eftir árum og mánuðum?“

Svar mitt verður að takamarkast mjög við þann tíma sem ég hef. Ég hef að sjálfsögðu gögn undir höndum um þetta eftir mánuðum. Þurft hefur að fella niður flug til Ísafjarðar á árunum 2000–2004 sem hér segir:

Árið 2000 112 sinnum, og 13 sinnum á því ári var flogið til Þingeyrar. Árið 2001 varð að fella 150 sinnum niður flug til Ísafjarðar en flogið 29 sinnum til Þingeyrar í staðinn. Árið 2002 féll flug 121 sinni niður en 39 sinnum var hægt að fljúga til Þingeyrar. Árið 2003 féll flug 70 sinnum niður en 22 sinnum var flogið til Þingeyrar. Árið 2004 varð að fella niður flug 77 sinnum til Ísfjarðar og þá var flogið 15 sinnum til Þingeyrar.

Í ráðuneytinu liggur fyrir, eins og fyrr sagði, sundurliðun á þeim tilvikum þar sem ekki hefur verið hægt að lenda á Ísafirði annars vegar og hins vegar hve oft hefur verið flogið til Þingeyrar í staðinn eftir mánuðum og árum.

Í annan stað er spurt:

„Hve oft hefur verið lent á Þingeyrarflugvelli þegar ófært hefur verið til Ísafjarðar á sama tímabili, skipt eftir árum og mánuðum?“

Ekki liggur fyrir nein skráning á því hvenær lent hefur verið á Þingeyrarflugvelli þegar ófært hefur verið til Ísafjarðar. Hins vegar má gera ráð fyrir að í flestum, ef ekki öllum, tilvikum þar sem lent er á Þingeyri sé um það að ræða að ófært sé til Ísafjarðar. Því er við að bæta að það er alveg ljóst að aðstæður hafa ekki verið þannig á Þingeyri að alltaf sé hægt að fljúga þangað, fjarri því.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hvaða úrbætur yrði að gera á Þingeyrarflugvelli til að hann gæti að fullu þjónað sem varavöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll og hvað yrði samfara því mikill stofnkostnaður annars vegar og rekstrarkostnaður hins vegar?“

Undanfarin ár hefur Þingeyrarflugvöllur verið rekinn sem varaflugbraut fyrir Ísafjarðarflugvöll og þjónustustig skilgreint í samræmi við það. Þetta fyrirkomulag hefur styrkt stöðu Ísafjarðarflugvallar verulega og aukið ferðatíðni áætlunarflugs til muna. Unnið hefur verið að því að bæta veðurgjöf og veðurupplýsingar frá staðnum, m.a. með því að setja upp myndavélar á Þingeyrarflugvelli sem sýna á tölvuskjá í flugturninum á Ísafjarðarflugvelli hvernig aðstæður eru á Þingeyrarflugvelli þá stundina. Einnig er hægt að lesa af veðurmælakerfum Þingeyrarflugvallar á tölvuskjá á Ísafjarðarflugvelli. Allt er þetta til þess fallið að flýta fyrir veðurupplýsingum til flugrekandans og skapa nútímalegri vinnubrögð í þágu flugsins með flugöryggi að leiðarljósi.

Hafa verður í huga eftirfarandi atriði við skoðun talna um nýtingu á Þingeyrarflugvelli: Þar sem flugbrautin er í stysta lagi fyrir Fokker 50 flugvélar nýtist hún ekki sem skyldi vegna þungatakmarkana. Þá eru ekki ljós á flugbrautinni sem gerir erfiðara en ella að nýta hana við léleg birtuskilyrði, einkum á tímabilinu frá nóvember til janúar. Raunverulegur ferðafjöldi til Þingeyrar segir ekki allt um nýtingu flugvallarins þar sem ófáar ferðir til Ísafjarðar eru hafnar vegna þess að mögulegt er að lenda á Þingeyri ef veðurskilyrði bregðast á Ísafirði.

Talið er að með endurbyggingu og lengingu flugbrautarinnar og tilkomu flugbrautarljósa ásamt með öðrum öryggisbúnaði verði flugi í auknum mæli beint inn á Þingeyrarflugvöll þegar austlægar og suðlægar áttir eru ríkjandi á Ísafjarðarflugvelli. Áætlun Flugmálastjórnar gerir ráð fyrir endurbyggingu Þingeyrarflugvallar, og það er í samræmi við samgönguáætlun, með það að markmiði að brautin geti að fullu þjónað sem varaflugbraut fyrir Ísafjarðarflugvöll og sé nothæf allan sólarhringinn. Gert er ráð fyrir því að endurbyggð braut geti þjónað Fokker 50 flugvélum ekki síður en Ísafjarðarflugvöllur. Unnið er að lokahönnun verksins og gerð útboðsgagna og áætlað að framkvæmdir hefjist á komandi vori. Gróf kostnaðaráætlun hefur verið gerð en lokahönnun liggur ekki fyrir þannig að ekki er varlegt að gefa upp tölur nema á mjög breiðu bili. Þetta gæti kostað ríflega 170 millj. kr. en jafnframt þarf að gera breytingar á legu vegar. Rekstrarkostnaður Þingeyrarflugvallar var um 5 millj. á árinu 2004 og áætlað að hann hækki eitthvað við þessar breytingar. Það er þó alveg augljóst að hagsbæturnar eru þvílíkar og öryggið í flugi mundi aukast svo mikið að ég tel enga spurningu um það að eðlilegt sé að reyna að hraða þessum framkvæmdum eins og kostur er. Þær eru á samgönguáætlun og það er fjárveiting til þeirra á þessu ári þannig að hægt er að bjóða þetta út strax og undirbúningi er lokið.