Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 14:56:37 (4690)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[14:56]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um þennan flugvöll. Ég legg mikla áherslu á það að hluti af þessari flugvallaþjónustu fyrir norðanverða Vestfirði er auðvitað Þingeyrarflugvöllur. Sannleikurinn er sá að með því að treysta uppbyggingu hans er hægt að auka bæði flugöryggi til Ísafjarðar og enn fremur tryggja betur flugsamgöngur, einfaldlega vegna þess að eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra eru svo og svo margir dagar á ári sem flug á Ísafjörð fellur niður en hægt að fljúga til Þingeyrar.

Það er líka annað sem menn mega ekki gleyma, oft fljúga menn áleiðis vestur, jafnvel þó að það líti út fyrir að vera ófært til Ísafjarðar, í trausti þess að hægt sé að lenda á Þingeyri. Það er gríðarlega þýðingarmikið að svo sé búið um hnútana að hægt sé að nýta þennan flugvöll algjörlega. Þess vegna fagna ég yfirlýsingum hæstv. ráðherra.