Svartfugl við Norðurland

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 15:13:25 (4697)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:13]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er verið að hreyfa við mjög mikilvægu efni. Það ber að fagna því sem hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan um að hún væri búin að setja í gang vinnu til að athuga möguleikana á því að efla sjófuglarannsóknir. Ég hygg að einmitt sjófuglastofnarnir sem lifa norður af landinu geti á margan hátt veitt okkur dýrmætar upplýsingar um ástand vistkerfisins þar frá einum tíma til annars ef við setjum smávinnu og peninga í að fylgjast með þeim. Þarna getum við notfært okkur upplýsingar sem við fáum með því að fylgjast með þessum fuglum og ástandi þeirra, upplýsingar um það hvernig vistkerfinu reiðir af á hverjum tíma.

En það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að mjög skortir á að aukið verði við grunnrannsóknir á vistkerfinu norður af Íslandi, á vistkerfi Norður-Íshafsins. Það sem gerist þar, sérstaklega yfir sumartímann, er nefnilega mótorinn sem knýr áfram vistkerfi hafsins í kringum Ísland og grundvöllurinn fyrir því ríka lífríki sem er við Íslandsstrendur. Það er enginn vafi á því.