Svartfugl við Norðurland

Miðvikudaginn 16. febrúar 2005, kl. 15:14:50 (4698)


131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:14]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það voru athyglisverð svör sem komu fram við þessari fyrirspurn, að svartfugl við Ísland er að drepast úr fæðuskorti, eða hann er að drepast úr hor eins og við getum sagt á góðri íslensku. Þá veltir maður fyrir sér hvort það sé vegna þess að fæðuframboð hafi minnkað, eða er það vegna þess að viðgangur þessara fuglastofna er með þeim hætti að fuglunum hefur fjölgað mikið og fæðuskortur er þess vegna? Þetta hlýtur að vera sú grundvallarrannsókn sem fram þarf að fara.

Einnig veltir maður fyrir sér hvaða fæða það er sem svartfuglinn étur yfirleitt. Hefur þá verið rannsakað, ef það er skortur á fæði, hvað valdi fæðuskortinum? Er svartfuglinn í samkeppni við aðrar dýrategundir um þetta fæði eða er hann kannski að mestu leyti í samkeppni við okkur, manninn, um ýmsar sílistegundir sem hann væntanlega nýtir til fæðu?

Það sem mér finnst hafa komið fram í þessu svari er að verulega skortir rannsóknir. Ég fagna því ef þær á að auka því að við verðum að vita meira um vistkerfið fyrir norðan land en við gerum í dag og það gerum við ekki nema með auknum rannsóknum.