Kosningarnar í Írak

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 10:54:33 (4712)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við skulum halda því til haga að ekki var ráðist inn í Írak til að kjósa. Kosningarnar fóru fram í öryggisleysi í hernumdu landi. Við vitum ekki afleiðingar þess að mikilvægur minnihlutahópur, súnnítar, voru ekki sáttir við gang mála. Gleymum því heldur ekki að Bandaríkjamenn gerðu ólöglega innrás þar sem tugþúsundir létu lífið og íslensk stjórnvöld studdu þann hernað í bága við vilja íslensku þjóðarinnar.

Í áttafréttum í morgun var sagt frá fundi vestan hafs í gær þar sem CIA lýsir miklum áhyggjum yfir ástandinu í Írak og lýsir því sem vargöld. Það er spenna á öllu svæðinu, Sýrlandi, Kúveit, Sádí-Arabíu og sjónir beinast mjög að Íran núna. Þetta er ástandið í Írak í þeirri umræðu sem við erum að fara fram með núna.

En ég tek undir með Siv Friðleifsdóttur að Arabíukonur Jóhönnu Kristjónsdóttur hafa varpað skýru ljósi á arabasamfélögin og eytt fordómum. Staða kvenna hefur verið forgangsmál í Írak frá því það varð sjálfstætt og kvennasamtök hafa verið sterk í Írak frá 1968. Saddam Hussein hróflaði ekki við þeim, enda eiginkonan Sadía ein af forustukonunum. Konur hafa yfirleitt haft hátt hlutfall á þingi, oftast yfir 30% en fóru reyndar niður í 10% í stríðinu við Íran, en þá héldu írakskar konur þjóðfélaginu gangandi.

Kvóti tryggði stöðu írakskra kvenna á þingi í kosningunum núna. Það skiptir miklu máli að staða þeirra versnaði ekki á þingi. Ég vek athygli á mikilvægi kvótans þegar tryggja á þátttöku kvenna í samfélögum.

En ég vona, virðulegi forseti, að þrátt fyrir allt séu þessar kosningar byrjun á jákvæðu ferli í þessu stríðshrjáða landi og að það takist að lægja ófriðaröldur og ég styð það (Forseti hringir.) heils hugar að fé verði veitt fé til írakskra kvenna.