Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 12:36:54 (4745)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:36]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt, nema ég held að það gerist í ríkari mæli en hv. þingmaður telur að þeir sem standa utan stéttarfélaga eða kjósa að gera það, njóti ávaxtanna af erfiði hinna og peningum sem þeir verja til félagsstarfsins þó að þeir standi sjálfir fyrir utan. Ég ætla að reyna að botna þessa hugsun.

Ef við göngum út frá því að hver og einn geti valið er sú staðreynd fyrir hendi og reynslan sýnir okkur það erlendis frá að á atvinnuleysistímum, ég gat um þetta aðeins áðan, hafa atvinnurekendur stillt einstaklingunum upp við vegg og sagt: Ég skal ráða þig í vinnu að því tilskildu að þú standir utan félags. Eins muni það gerast að ef einstaklingurinn og atvinnurekandi, við skulum ekki gleyma því að þeir koma báðir að þessu, geta valið um að greiða iðgjald sem lýtur aðeins að grunnþjónustu en ekki að því sem kann að vera til viðbótar, þá muni atvinnurekandinn einnig beita þvingunarvaldi sínu í þessa veru. Þá er hætt við því að það sem hv. þingmaður, og ég geri ekkert lítið úr því sjónarmiði, lagði upp með sem mannréttindakröfu, kröfu einstaklings að geta staðið utan félags, hafi snúist upp í andhverfu sína og svipti hann réttindum, vegna þess að í því felst ákveðin vörn fyrir einstaklinginn að þetta sé skylda þar sem hann nýtur alls pakkans.

Þá erum við komin að grunnhugsuninni hjá mér. Ég er að reyna að berjast fyrir viðurkenningu á því að einn af grunnpóstunum í lýðræðisþjóðfélagi sem byggir á blönduðu hagkerfi, sé verkalýðshreyfingin. Ég væri tilbúinn að ræða um frelsi einstaklingsins til að vera í verkalýðsfélagi og þar þarf verkalýðshreyfingin að taka á honum stóra sínum. Það hafa iðulega verið mikil átök milli verkalýðshreyfinga um slíkt val. Það er önnur saga. (Forseti hringir.) Þetta er svar mitt við þeirri grundvallarspurningu sem hv. þingmaður tefldi hér fram.