Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 12:39:14 (4746)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Af því hv. þm. Ögmundi Jónassyni er svo umhugað um lýðræðið, þá verð ég að segja að þetta rekst allt hvað á annars horn. Það er ekki sérstaklega mikið lýðræði falið í því að skylda menn til aðildar að félögum sem þeir hafa engan áhuga á að eiga aðild að. Það er bara þannig. (ÖJ: Það er atvinnurekandinn sem hefur ekki áhuga á því.) Síðan er það röksemd hjá hv. þingmanni að ef sú leið verður farin að hluti af starfsemi stéttarfélags verði gerður aðildarskyldur en annar frjáls, muni atvinnurekandinn beita þvingunarúrræði sínu til þess að draga máttinn úr stéttarfélögunum og beina öllum einungis inn í skylduaðildarþáttinn en ýta mönnum út úr hinu frjálsa félagaformi.

Ég held við megum ekki gefa okkur það að atvinnurekendur séu slík skrímsli að þeir beiti brögðum gagnvart launþegum eins og hv. þingmaður vék hér að. Atvinnurekandinn er líka góður og launþegar mega þakka honum ýmislegt. Það er atvinnurekendum og þeim sem leggja í fjárfestingar talsvert að þakka að launþegarnir hafa vinnu. Við skulum ekki gleyma því. (ÖJ: Það verður að vera gagnkvæm virðing.) Já, gagnkvæm virðing. Ef fulltrúar launþega og þeir sem gæta hagsmuna þeirra vilja að atvinnurekendur sýni virðingu, þá verður virðingin að vera gagnkvæm. Mér hefur ekki fundist það alltaf vera viðkvæðið hjá verkalýðsforkólfunum að svo sé. (Gripið fram í.)