Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 13:03:37 (4751)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:03]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri svona allt upp á grín hjá hv. þingmanni, að varpa fram þessari hugmynd að millileið. Ég verð hins vegar að draga þá ályktun af máli hv. þingmanns að hann sé að hopa frá hugmynd sem hann sjálfur varpaði hérna fram. (SKK: Rugl.) Hvernig stendur á því að hv. þingmaður kemur hér og varpar fram þeirri hugmynd til okkar sem höfum verið að andæfa frumvarpinu að farin verði ákveðin millileið? Það hlýtur að vera vegna þess að hann telji möguleika á því í stöðunni. Hvað felst í þeim möguleika? Jú, lágmarksgjald sem allir yrðu að greiða fyrir ákveðna lágmarksþjónustu. Þar með er hv. þingmaður kominn að þeirri niðurstöðu að í lagi sé að lögskylda alla til ákveðinnar greiðslu. (Gripið fram í.) Bara ekki sömu greiðslu og gildir í dag. Prinsippið er hið sama. Það er það sem skiptir máli. Þarna höfum við leitt eitt frjálshyggjulambið enn til réttar.