Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 13:07:47 (4754)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:07]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð annað en að flutningsmaður sé kominn með stuðningsmann við frumvarpið. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það, sama hvernig menn leika sér með það, að skylda mann til að greiða í ákveðið félag og vera í ákveðnu félagi, að brjóta gegn frelsi viðkomandi.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur sagt að þetta sé bara gott fyrir viðkomandi, að hann hafi bara gott af þessu, það nýtist honum ofsalega vel og séu svo mikil réttindi að ef hann hafi ekki vit á því að velja þau sjálfur sé best fyrir okkur að velja það fyrir hann. En það liggur fyrir, alveg eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðaði það, að þetta er kvöð, þetta er helsi. Viðkomandi einstaklingur hefur ekki frelsi til að velja þetta sjálfur. Það er óumdeilt.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýtur að geta tekið mið og mótað sér stefnu. Ef hann er þessarar skoðunar þá hlýtur hann að geta gert upp hug sinn sjálfur, óháð því hvaða niðurstöðu Félagsdómur hefur komist að. Eða er það kannski þannig að ef annað dómstig kæmist að annarri niðurstöðu þá mundi hv. þingmaður skipta um skoðun?