Notkun endurnýjanlegra, innlendra orkugjafa

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 14:40:36 (4777)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[14:40]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög vel við hæfi að við tökum þessa tillögu til umfjöllunar um þetta leyti þar sem í gær var hin opinbera gildistaka Kyoto-bókunarinnar. Af því tilefni var einmitt fundur í boði umhverfisráðuneytisins þar sem fjallað var um loftslagsbreytingar og framkvæmd bókunarinnar. Það var afskaplega skemmtilegur og athyglisverður fundur og mikið af góðum upplýsingum kom þar fram. Eitt af því sem menn ræddu þar var það hvernig orkugjafar í samgöngum mættu verða umhverfisvænni.

Þegar menn ræða slíka tillögu er rétt að rifja upp kannski með örfáum orðum hvað gert hefur verið í því efni. Sú tillaga sem hér er rædd gerir m.a. ráð fyrir lagabreytingum þess efnis að heimilt verði að fella niður ýmis opinber gjöld varðandi þau ökutæki sem nýta innlenda orkugjafa. Af því tilefni er rétt að rifja upp að í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, er einmitt gert ráð fyrir því að ökutæki séu undanþegin gjaldskyldu, þ.e. þau ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli og vetni. Þau eru sem sagt undanþegin gjaldskyldu.

Þetta ákvæði var lögfest 1997 og í athugasemdum með því frumvarpi sem varð þá að lögum kemur m.a. fram að breyting sú sem þá var lögð til hafi verið gerð í þeim tilgangi að hvetja til aukinnar notkunar ökutækja sem ekki gefa frá sér koltvísýring. Árið 1997 voru menn einmitt að huga að þessum málum.

Síðan er annað varðandi vörugjaldið, um tvíorkubifreiðar. Samkvæmt ákvæði VII til bráðabirgða í fyrrgreindum lögum skal „[v]örugjald af bifreiðum sem eru gjaldskyldar skv. 3. gr. laganna og búnar eru vélum sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu […] vera 120.000 kr. lægra en ella væri samkvæmt greininni“. Þessi heimild til lækkunar gildir til 31. desember 2006.

Þegar ákvæðið var framlengt með lögum 38/2000 kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að markmiðið með breytingunni sé „að styðja við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum“. Þá hafði verið bent á það að „notkun tvíorkubifreiða sé nauðsynlegt skref í frekari þróun í framleiðslu bifreiða sem eingöngu verða knúnar öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu“. — Mér láðist víst að fá leyfi hæstv. forseta fyrir þessari tilvitnun.

Fram kemur í tillögunni að ákvæði VII til bráðabirgða heimili ekki að veita afslátt af vörugjaldi þegar um er að ræða bifreiðar sem nýta vetni. Það er alveg rétt enda eru bifreiðar sem knúnar eru óhefðbundnum orkugjöfum, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegnar vörugjaldi samkvæmt því sem áður sagði. Það er því verið að hvetja til aukinnar notkunar þessara bifreiða.

Niðurfelling vörugjalds nær ekki til ökutækja sem bæði eru knúin mengandi og minna mengandi orkugjöfum, samanber tvíorkubifreiðar, en slíkum ökutækjum var veittur 120 þús. kr. afsláttur sem ég vitnaði til áðan. Ekki verður farið í þennan mun á vetnis- og rafmagnsbifreiðum annars vegar og tvinnbifreiðum hins vegar út frá umhverfissjónarmiðum en ljóst að fyrrgreindu ökutækin eru minna skaðleg fyrir umhverfið en hin síðarnefndu.

Ég vil aðeins minnast á þungaskattinn. Í lögum um fjáröflun til vegagerðar kemur fram að í ákvæði til bráðabirgða eru bifreiðir sem nota í tilraunaskyni annan orkugjafa en bensín, dísilolíu eða annað eldsneyti unnið úr olíu undanþegnar greiðslu þungaskatts til 30. júní 2005. Ég held að hv. framsögumaður hafi vitnað til þess að dagsetningin sem fram kemur í tillögunni hafi ekki verið rétt, ákvæðið er ekki fallið úr gildi heldur framlengt með lögum nr. 127/2004 fram til 30. júní 2005.

Þá falla úr gildi lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, en frá og með 1. júlí 2005 taka gildi lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Samkvæmt þeim lögum er ekki að finna gjaldskyldu vegna tvinnbifreiða eða bifreiða sem nota einvörðungu óhefðbundna orkugjafa, að undanskildu því að ef ökutækin eru 10 tonn eða þyngri ber þeim að greiða kílómetragjald. Öll tæki yfir 10 tonnum skulu greiða kílómetragjöld óháð eldsneytisnotkun.

Hæstv. forseti. Tími minn er víst á enda en breytingin varðandi olíuna hefur mjög góð áhrif hvað það varðar að dísilbílar verða almennari í notkun þegar þungaskatturinn er kominn í olíuna og því verður ódýrara að nýta dísilbíla, sérstaklega fyrir smærri fólksbíla.