Notkun endurnýjanlegra, innlendra orkugjafa

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005, kl. 15:34:21 (4789)


131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:34]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tvíorkubílar eru örfáir á markaðnum og þeir eru mjög dýrir. Það er ekki vitað hvernig það breytist á næstunni. Það er mikil ástæða til að spyrja sig hvernig mál standi gagnvart því að nýta metanól sem er virkilega stór möguleiki hér. Komið hafa fram hugmyndir um að hægt væri að framleiða mikið af eldsneyti í samstarfi við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Þar eru menn að tala um verulegan stóran hluta af eldsneytisþörf bílaflotans sem væri hægt að framleiða í samstarfi við þessa verksmiðju.

Ég hef ekki heyrt neinar nýjar fréttir af því máli. Ég efast um að mikið sé að gerast hvað það varðar að skoða þann kost. Ég held að full ástæða sé til að benda á það sem þurfi að líta til í þessum efnum. Ég hef sagt áður í umræðunni að ég held að mikil ástæða sé til að vanda til við áætlunargerðina alla, ekki síst þann hluta hennar sem snýr að því tímabili sem líður þangað til menn komast inn í þetta vistvæna umhverfi framtíðarinnar. Það er nefnilega svolítið þangað til.