Hækkun hámarksbóta almannatrygginga

Mánudaginn 21. febrúar 2005, kl. 15:30:27 (4832)


131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

5. fsp.

[15:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra fylgist með þessu máli. Vissulega er um fjárhæðir að ræða en það eru ekki nema þrír, samkvæmt skýrslunni, sem lenda í því óréttlæti að fá ekki tjón sitt bætt, reyndar fjórir með þeim sem bættist við á þessu ári. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að þessi upphæð verði hækkuð.

Það kemur fram í skýrslunni að Tryggingastofnun sér um opinberu stofnanirnar en tryggingafélög um sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn. Það kemur fram að það er erfitt að samræma framkvæmd trygginganna með þessu fyrirkomulagi og er vísað til Dana sem hafa fært allar þessar tryggingar yfir til tryggingastofnunar sinnar, þ.e. Patientforsikringen, og því spyr ég hæstv. ráðherra í framhaldinu: Er hann tilbúinn til að færa sjúklingatrygginguna alfarið inn í Tryggingastofnun þar sem reynsla og þekking er fyrir hendi við að fjalla um sjúklingatryggingar?