Afdrif laxa í sjó

Mánudaginn 21. febrúar 2005, kl. 16:32:52 (4849)


131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:32]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að við hv. þingmaður hefðum svo oft rætt þetta á vegum Þingvallanefndar og yfir góðum kaffibolla eða urriða að ég þyrfti ekki að rekja það frekar. Ég tel þetta mikilvægt mál og litla fórn af hálfu Landsvirkjunar eða ríkisins að huga að þeim merkilega urriðastofni sem Þingvallavatn geymir og dafnaði vel þar forðum en vísindin hafa haldið fram að honum hafi verið fórnað vegna virkjunar sem þar var reist. Mín skoðun er alveg klár í því, að ég tel að ríkisvaldið og Landsvirkjun eigi að huga að þessari gjöf til baka. Ég vona sannarlega að hún mundi styrkja og efla þann mikla urriðastofn og framtíð Þingvallavatns og Þingvallasveitar.