Afdrif laxa í sjó

Mánudaginn 21. febrúar 2005, kl. 16:52:35 (4853)


131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:52]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessum upplýsingum. Ég tel rétt að þessi mál komi einfaldlega fyrir þingið og það hafi frumkvæði í þessu máli, sem sagt á grundvelli tillagna og stefnumótunar frá Þingvallanefnd. Málið tengist mjög þjóðgarðinum og ef einhverjum er það sérstaklega skylt þá ætti það að vera Alþingi sem á að taka það til sín. Ég fagna því og bíð með frekari umræður um það mál fram að því að við fáum þá áætlun og tillögur nefndarinnar hingað inn.

Að öðru leyti endurtek ég stuðning minn við anda þessarar tillögu. Mér er málið mjög kært, ef ég má orða það svo hátíðlega. Ég er áhugasamur um viðgang laxastofnsins og auðvitað urriðans, hins forna urriða. Ekki vil ég þá að íslenska fjallableikjan gleymist, sem er stórmerkilegur stofn. Þar tala ég bæði frá umhverfislegum og náttúrufarslegum sjónarmiðum og auðvitað er nýting villtra laxastofna í landinu mikið hagsmunamál sem ekki má stofna í voða á nokkurn hátt. Það er ærin ástæða til að fara í þessar rannsóknir.

Auðvitað svífa svolítið yfir vötnum þær áhyggjur sem menn hafa haft af áformum um stórfellt laxeldi í sjó í kvíum. Það er nú ekki sýnt með það hve stórfellt það verður á komandi árum að mínu mati. Ég hef verið í hópi efasemdarmanna um að þar væri sú ábatasama stóriðja í uppsiglingu sem margir virðast trúa, a.m.k. er það eldi enn mun smærra í sniðum en til stóð að ráðast í um tíma. Þar var gáleysislega af stað farið og við gagnrýndum harkalega á sínum tíma að þau áform skyldu ekki fara í rækilegt mat á umhverfisáhrifum áður en menn tækju bindandi og endanlegar ákvarðanir um að leyfa eldi í stórum stíl í sjó á stofni af erlendu kyni. En þessar rannsóknir eru þarfar og löngu tímabært að efla þær.