Afdrif laxa í sjó

Mánudaginn 21. febrúar 2005, kl. 17:23:54 (4861)


131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:23]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni landbúnaðarnefndar fyrir þessar góðu undirtektir. Segja má að henni renni blóðið til skyldunnar vegna þess að bókstaflega talað um bæjarhlaðið þar sem hún stýrir stóru búi, að Keldum á Rangárvöllum, rennur á þar sem mönnum hefur tekist að byggja upp mikla veiði og mikla atvinnu í tengslum við sleppingar á seiðum. Sú atvinna helgast nokkuð af því hvað verður um þau seiði sem til sjávar ganga. Eins og við vitum hafa verið ákaflega mikil áraskipti á því. Stundum hefur það gengið ákaflega vel og stundum ekki. Sjálfur hef ég margoft staðið á bökkum þeirrar ár og veitt laxa, bæði litla og stóra, sem hefur verið sleppt í ána. Þar háttar svo til að vikurinn frá spúandi eldfjalli leggur á nokkurra áratuga fresti öll uppvaxtarsvæði nánast í eyði, þannig að áin er algjörlega háð sem veiðiá þessum sleppingum. Þá skiptir máli upp á fjárfestingu og þá atvinnu sem byggðarlagið hefur af þessu hvað verður um laxinn í sjónum.

Hv. þingmaður gat þess að einmitt í tengslum við þá starfsemi hefði mikil atvinna spunnist. Nú er það svo að það byggðarlag sem hv. þingmaður kemur frá er ekki í neinni hættu statt. Það stendur vel að mörgu leyti og miklu betur en víða annars staðar. Ef hægt væri eins og menn eru, t.d. sömu aðilar og þar voru frumherjar, að berjast fyrir að koma upp svipaðri atvinnu austur á fjörðum þar sem byggðirnar eiga vissulega í vök að verjast, ef það tækist með sama árangri, þá væri það auðvitað alveg stórkostlegt. Það sýnir hvað þetta er mikið þjóðþrifaverk sem hér er verið að leggja til að ráðist verði í.