Landsvirkjun

Þriðjudaginn 22. febrúar 2005, kl. 13:58:16 (4890)


131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er skoðun mín að heillaspor, þótt stutt hafi verið, hafi verið stigið með viljayfirlýsingunni um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Í efnahagslegu samhengi skiptir auðvitað meginmáli að greiðslan er yfirtaka lífeyrisskuldbindinga og greiðist á tiltölulega löngu tímabili. Það er alveg ljóst að mikilvægt er að fá hreinni línur og skýrari í eignarhluti á orkumarkaðnum. Það er ekki eðlilegt að allir eigendur Landsvirkjunar eigi orkufyrirtæki sem eru í beinni samkeppni við Landsvirkjun.

Þar spilar auðvitað Orkuveita Reykjavíkur stærsta rullu. Frumkvæði R-listans var því mjög gott og við vonum að R-listinn skiptist ekki upp í frumeindir sínar áður en honum tekst að klára þá yfirlýsingu sem skrifað var undir.

Fyrsta skrefið er að Landsvirkjun komist í hreina eign ríkisins. Þegar það skref er stigið til fulls er hægt að skoða með hvaða hætti heildareignum ríkisins á orkumarkaði verði stýrt. Yfirlýsing hefur legið fyrir um sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða og að því fyrirtæki verði breytt í hlutafélag.

Ég tel einsýnt að eðlilegt sé að skoða t.d. aðkomu lífeyrissjóðanna að almannaþjónustufyrirtækjum eins og orkufyrirtæki eru. Rekstrarform það sem nú er á þessum fyrirtækjum er löngu úrelt og er nauðsynlegt að breyta því. Hlutafélagaformið er það sem hentar væntanlega best. Skoða þarf með hvaða hætti skipulag væntanlegs fyrirtækis verður. Sú umræða verður að fara fram með hagsmuni notendaþjónustunnar og starfsfólks í forgrunni ásamt hagsmunum ríkissjóðs.

Hægt væri t.d. að reka fyrirtækið í samstæðu þannig að orkufyrirtækin í núverandi formi yrðu sjálfstæð innan hennar. Það er ljóst að starfsemin verður úti á landi þar sem eignirnar eru. Þar er öll raforkuframleiðslan og mest af raforkusölunni fer þar fram.

Það er sem sagt, hæstv. forseti, margt sem þarf að skoða. Allt er undir, m.a. það hvernig eignarhaldinu verður komið í hendur annarra en ríkisins. Við höfum líka ágætan tíma til að fara yfir málin og eigum að gera það á þeim þremur árum sem gert er ráð fyrir að taka í það mál.