Landsvirkjun

Þriðjudaginn 22. febrúar 2005, kl. 14:00:30 (4891)


131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[14:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það sem ég vil gera að umtalsefni hér er trúverðugleiki hæstv. iðnaðarráðherra og einnig trúverðugleiki Framsóknarflokksins.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur nýlega göslast áfram við að breyta skipulagi í raforkumálum. Þegar farið var af stað í þá vegferð var lofað hækkun upp á ekki meira en 100 kr., óverulegri hækkun. En hver varð niðurstaðan? Tugþúsunda króna hækkun hjá þeim sem hita hús sín með raforku. Ekki nóg með það, heldur hafa í ofanálag skattgreiðendur fengið aukalega reikning upp á hundruð milljóna króna.

Ég hefði talið ráð fyrir Framsóknarflokkinn að staldra við og fara að leysa þau vandamál sem upp hafa komið í stað þess að leita uppi ný. Ég tel einmitt að þessi yfirlýsing um sameiningu Orkubús Vestfjarða, Rariks og Landsvirkjunar sé svik, svik við þau fyrirheit sem hafa verið gefin, m.a. í þeirri skýrslu sem var send í síðasta mánuði vestur, Vaxtarsamningi Vestfjarða, gefinni út af iðnaðarráðuneytinu. Þar kemur fram að það eigi að sameina orkufyrirtækin í Norðvesturkjördæminu og að þau eigi að hafa höfuðstöðvar á Ísafirði.

Nú er allt í einu komið annað hljóð í strokkinn, og ég spyr: Hvað er eiginlega í gangi og hvenær hófst vinna við þessa fyrirhuguðu sameiningu? Það skiptir máli. Í umræðunni í gær sagði hæstv. iðnaðarráðherra að ekki ætti að taka mark á gömlum skýrslum. En á að taka mark á nýjum skýrslum frá hæstv. ráðherra? Ég spyr.

Það að tala um að hér eigi að koma á samkeppni er ótrúverðugt. Ég tel að það verði engin samkeppni úr því að grauta saman fyrirtækjum sem eru annars vegar í samkeppni í framleiðslu og hafa hins vegar einokunaraðstöðu í dreifingu. Ég átta mig ekki á því. Ég hefði talið að allir sem eitthvert vit hafa á viðskiptum ættu að sjá að þessi leið er ekki vænleg til að koma á samkeppni á raforkumarkaði, þvert á móti.