Einkaleyfi

Þriðjudaginn 22. febrúar 2005, kl. 17:44:23 (4942)


131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Einkaleyfi.

251. mál
[17:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni erum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum. Eins og komið hefur fram í máli framsögumanns minni hluta iðnaðarnefndar, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, höfum við miklar efasemdir um að lögfesta eigi þessa þætti úr tilskipun 2004/27/EB fyrr en hún verður að lögum annars staðar.

Ég hafði hugsað mér að vitna í allar þær umsagnir sem við fengum til nefndarinnar sem kveða á um að menn telji þetta ekki ráðlegt en hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur þegar farið yfir þá þætti.

Engar upplýsingar hafa komið fram um það í umræðunni hvers vegna verið er að hlaupa til og gera þessar breytingar nú og lögfesta þær fyrr en þörf er á. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar mun lagabreytingin raska jafnvægi þeirrar sáttar sem varð til milli hagsmunaaðila þar sem eru annars vegar samheitalyfjaframleiðendur og frumlyfjaframleiðendur. Auðvitað þarf að koma fram í umræðunni á Alþingi áður en málið verður afgreitt héðan hvað býr að baki, hverjir það eru sem græða á breytingunni. Það kom ekki fram í nefndinni. Aftur á móti komu fram mjög sterk mótmæli við breytingunni og margir voru á þeirri skoðun, m.a. heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, að bæði lyfjalögin og einkaleyfalögin ættu samtímis að taka upp tilskipunina og það væri alls ekki eðlilegt að vera að lögfesta þennan þátt á undan tilskipuninni í heild.

Ég óska eftir því að hv. formaður iðnaðarnefndar geri grein fyrir því hvað búi að baki og hverjir hafi hag af þessu og hvers vegna stjórnarmeirihlutinn sé að fara í þennan leiðangur í andstöðu við heilt ráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, og alla þá aðila sem höfum nefnt í nefndaráliti okkar, m.a. Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Eli Lilly Danmark A/S, Félag íslenskra stórkaupmanna og Lyfjastofnun. Lyfjastofnun hefur einmitt lagst gegn því í umsögn sinni að farin verði sú leið sem stjórnarmeirihlutinn vill fara með frumvarpinu.

Við vorum öll sammála um að taka upp tilskipunina, það var enginn ágreiningur um það í nefndinni. En að raska jafnvæginu á þennan hátt og fara gegn þeim aðilum sem við nefndum í umsögn okkar er óeðlilegt og þarf að koma fram hvað þar býr að baki, hvar fiskur liggur undir steini í þeim efnum.

Farið hefur verið yfir hvað tilskipunin felur í sér og afstaða okkar til hennar komin vel í ljós. En hvers vegna má ekki bíða eftir því að við gerum líka breytinguna á lyfjalögunum? Ég varpa þeirri spurningu til hv. formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis J. Jónssonar.

Eins og Lyfjastofnun bendir á í umsögn sinni mun nýr verndartími gagna ekki taka gildi fyrr en 30. október 2005 í samræmi við þá tilskipun sem við fjöllum um og mun ekki koma að fullu til framkvæmda innan EES fyrr en 20. nóvember 2005. Þess vegna leggur Lyfjastofnun til að taka alla tilskipunina upp samtímis í lyfjalöggjöf og einkaleyfalöggjöf. En iðnaðarráðuneytið fer ekki með tilhögunina á þessum málum heldur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eins og ég benti á, það sér um tilhögun á innleiðingu tilskipunarinnar.

Félag íslenska stórkaupmanna er með mjög mörg rök fyrir því að ekki eigi að fara í lagasetninguna núna og leggst eindregið gegn því og bendir á marga þætti í umsögn sinni. Ég veit ekki hvort ég á að fara í gegnum hana alla, hún liggur náttúrlega fyrir og hv. þm. Jóhann Ársælsson er búinn að fara yfir nokkra þætti hennar. En eins og fram kemur í umsögn þeirra eru 130 lyfjaframleiðendur með lyf skráð hér á landi og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja hafa verið að fylgjast með málinu í þinginu og undrast hvers vegna íslenskum stjórnvöldum þykir ástæða til að taka einn afmarkaðan þátt tilskipunarinnar út og lögfesta hann sérstaklega. Mönnum er ekki kunnugt að önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins hyggist gera slíkt. Hvað kallar á að við gerum þetta þegar önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu ætla ekki að fara út í þetta? Hvað er svona áríðandi? Við þurfum auðvitað að fá skýringu á því eins og ég hef áður sagt.

Það má líka nefna það aftur að tilskipunin kallar aðallega á breytingu á lyfjalögunum sem við munum auðvitað fara yfir þegar málið kemur til þingsins og lögfesta og taka til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd þegar þar að kemur.

Hér er mjög ítarleg umsögn frá Eli Lilly Danmark A/S fyrirtækinu, útibúi þess á Íslandi, þar sem er einmitt andstaða við þetta. Ég ætla ekki að lesa upp úr þeirri umsögn þar sem hún er á ensku en við erum búin að fara yfir hana í nefndinni og þeir leggjast gegn því að við förum í breytinguna.

PharmaNor segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„PharmaNor hf. mælir afdráttarlaust gegn því að frumvarpið sem hér um ræðir verði að lögum.“

Þeir hafa fylgst með vinnslu málsins og segja að þeim þyki miður að frumvarpið skuli hafa verið lagt fyrir Alþingi því þangað eigi það ekkert erindi. Síðan fara þeir yfir nokkur atriði sem snúa að því hvers vegna það á ekki erindi í þingið núna og segja: „Ekkert knýr á um að tilskipunin verði lögfest á Íslandi fyrr en hún gengur í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu.“ En aðildarríki Evrópusambandsins hafa frest til 30. október 2005 til að innleiða tilskipunina í löggjöf sína.

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé ekkert að lengja umræðuna með því að lesa öll rökin fyrir þessu en það væri alveg full ástæða til þess. Það virðist þó ekki hafa dugað til því meiri hluti nefndarinnar er ákveðinn í að gera þetta að lögum.

Við í minni hlutanum höfum aftur á móti lagt fram breytingartillögu þar sem við leggjum til að gildistakan verði 30. október 2005 í takt við önnur Evrópuríki. Þá ætti breytingin á lyfjalögunum að ganga í gildi á sama tíma þótt sú vinnsla sé ekki komin í vinnu í þinginu, alla vega er breytingin á lyfjalögunum ekki komin til okkar í heilbrigðis- og trygginganefnd.

Áður en ég lýk máli mínu minni ég á að Lyfjafræðingafélagið telur ekki ástæðu til að lögfesta þetta fyrr en 30. október 2005 og bendir á, eins og við gerum reyndar í minnihlutaáliti okkar, að þar sem breytingin gæti hugsanlega verið til hagsbóta fyrir ákveðna hagsmunaaðila skapast tímabundið ójafnvægi milli áðurgreindra aðila og telur félagið það ganga gegn hugmyndum Evrópuþingsins og Evrópuráðsins með setningu tilskipunar 2004/27/EB.

Ég fer fram á það að formaður nefndarinnar upplýsi hverjir hagsmunaaðilarnir eru sem gætu haft hag af breytingunni. Hverjir eru hagsmunaaðilarnir? Hafa einhverjir verið í sambandi við Framsóknarflokkinn eða hv. þingmann eða einhvern í ríkisstjórninni og beðið um þennan greiða á þingi sem kemur þessum málum úr jafnvægi og er alls ekki í takt við aðrar lagabreytingar sem verða í kjölfar tilskipunarinnar?

Lyfjafræðingafélagið leggur til að ef menn þurfi að vera að lögfesta þetta núna ættu þeir a.m.k. að samþykkja breytingartillögu í þá veru sem við leggjum fram um að gildistakan verði ekki fyrr en 30. október 2005.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja málið frekar, ég held að það sé komið að mestu leyti fram hvað við höfum að athuga við málið. Við erum á sama máli og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Lyfjastofnun og fjölmargir aðrir umsagnaraðilar um málið og köllum eftir skýringum á því fyrir hverja er verið að lögfesta þetta svona snemma. Sú skýring hefur ekki komið fram í nefndinni og verður að koma fram í umræðunni áður en málið fer til 3. umr.