Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 12:28:33 (4969)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum.

511. mál
[12:28]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur spurst fyrir um meðferð Darfúr-málsins fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum, Hún spyr:

„Hvaða afstöðu hefur ríkisstjórn Íslands til þess að menn grunaðir um að hafa framið stríðsglæpi í Darfúr-héraði í Súdan verði látnir svara til saka fyrir Alþjóðasakamáladómstólnum?“

Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda skipaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hinn 18. september síðastliðinn sérstaka nefnd til að rannsaka hvort glæpir gegn mannkyninu hefðu verið framdir í Darfúr-héraði í Súdan. Skýrsla nefndarinnar skilgreinir fjögur meginmarkmið rannsóknarinnar:

Í fyrsta lagi hvort framin hefðu verið alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum, í öðru lagi að ganga úr skugga um hvort um þjóðarmorð væri að ræða, í þriðja lagi að finna þá einstaklinga sem hefðu staðið að þessum glæpum og í fjórða lagi að gera tillögur um hvernig þessir aðilar yrðu látnir svara til saka fyrir brot sín.

Eins og einnig kom fram hjá fyrirspyrjanda voru niðurstöður þessarar nefndar afhentar Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í lok síðasta mánaðar. Þær niðurstöður eru skýrar og afdráttarlausar. Samkvæmt skýrslunni ber ríkisstjórn Súdans ásamt Janjaweed-skæruliðahópnum ábyrgð á alvarlegum brotum gegn alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum. Þótt nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið framið þjóðarmorð tekur hún fram að niðurstaða þessi dragi í engu úr alvöru þeirra glæpa sem framdir hafa verið.

Nefndin leggur eindregið til að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna feli Alþjóðlega sakamáladómstólnum að taka fyrir mál þeirra einstaklinga sem nefndin hefur grun um að beri ábyrgð á þessum glæpum. Nefndin er þeirrar skoðunar að glæpirnir í Darfúr-héraði uppfylli þau viðmið sem Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn kveður á um. Það hlýtur að vera markmið allra ríkja að láta stríðsglæpamenn í Darfúr svara til saka sem allra fyrst. Með því er líklegra að komið verði í veg fyrir frekari glæpi af þessu tagi. Langlíklegast er að skilvirkasta leiðin til að leita þessa réttlætis sé að fela Alþjóðlega sakamáladómstólnum að taka það fyrir.

Eins og áður hefur verið sagt, sem rétt er að ítreka, er þessi ákvörðun í höndum öryggisráðsins. Það er auðvitað mikilvægt að öll aðildarríki þess sýni nauðsynlegan sveigjanleika til að komist verði að niðurstöðu sem fyrst þannig að draga megi hina brotlegu, við skulum segja hina grunuðu þar til sekt er endanlega sönnuð, fyrir rétt.