Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 12:38:59 (4973)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:38]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara spurningunum beint vil ég nefna, vegna þess sem hv. þingmaður nefndi og hefur gert áður varðandi þær þotur sem til staðar eru í tengslum við varnarviðbúnaðinn, að þoturnar hafa þann vopnabúnað tiltækan sem þotur af þessu tagi hafa með sama hætti og er í Bandaríkjunum. (Gripið fram í.) Jú, vopnabúnaður er fyrir hendi þannig að það er misskilningur hjá hv. þingmanni að svo sé ekki.

Hv. þingmaður spyr eftirfarandi spurninga:

„Hve mikið hefur starfsmönnum slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli fækkað, sundurliðað eftir deildum, frá því sem mest var þegar nýlega boðaðar uppsagnir verða að fullu komnar til framkvæmda?“

Svar við þessari spurningu er eftirfarandi eins og ég hef fengið það: Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli fellur undir og er rekið af varnarliðinu sem borgar allan kostnað af starfsemi þess. Því er skipt upp í slökkviliðsdeild og flugþjónustudeild. Samkvæmt upplýsingum varnarliðsins voru starfsmenn slökkviliðsdeildarinnar 107 og starfsmenn flugþjónustudeildar 46 hinn 1. ágúst 2004 en verða væntanlega miðað við óbreytt fyrirkomulag 86 og 36 hinn 1. júní 2005 þegar nýlega boðaðar uppsagnir verða að fullu komnar til framkvæmda. Ætlunin er að 15 slökkviliðsmenn verði á hverri vakt í stað 18 nú. Samkvæmt upplýsingum frá varnarliðinu er ástæðan fyrir þessum uppsögnum sú að sl. haust hafi eftirlits- og úttektaraðilar frá bandaríska sjóhernum tekið út slökkvilið allra flugvalla sem bandaríski sjóherinn notar og greiðir kostnað af. Niðurstaða þeirra varðandi Keflavíkurflugvöll hafi verið sú að starfsmenn í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli væru of margir og fjöldi þeirra nokkuð yfir alþjóðlegum kröfum og viðmiðunum. Fækkun stöðugilda í slökkviliðinu tekur mið af þessum alþjóðlegu reglum.

Í annan stað er spurt:

„Hvaða áhrif hefur fækkun starfsmanna haft eða kemur til með að hafa á starfsemi flugþjónustudeildar og þjónustustig við brautir vallarins?“

Breytingar á fyrirkomulagi og verkefnum flugþjónustudeildar hafa ekki áhrif á að flugöryggiskröfum varðandi flugbrautirnar á Keflavíkurflugvelli verði fullnægt. Útfærslan á breytingunum hefur ekki verið ákveðin og skiptir máli hvernig hún verður framkvæmd.

„Hvaða áhrif hefur fækkun starfsmanna haft eða kemur til með að hafa á öryggisstaðla og viðbragðsgetu slökkviliðsins og styrk varaslökkviliðs?“

Breytingar á starfsemi slökkviliðsins hefur ekki haft áhrif á öryggisstaðla eða viðbragðsgetu. Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli mun sem fyrr uppfylla setta öryggis- og viðbragðsstaðla.

„Hvernig er ætlunin að tryggja þjálfun og réttindi starfsmanna hvað varðar slökkviliðsstörf, sjúkraflutninga og hópslysaréttindi, meðferð sprengiefna o.s.frv., komi til útboða á einhverjum slíkum verkefnum?“

Það hefur komið til umræðu að bjóða út þann þátt slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli er varðar flugafgreiðslu herflutningavéla. Ef til þess kemur er það á ábyrgð þess sem fær verkið að ráða og þjálfa starfsmenn sem uppfylla þá staðla og tryggja að þeir njóti þeirra réttinda sem kjarasamningar kveða á um, ella yrði væntanlega ekki gerður neinn samningur við slíka aðila.