Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 12:47:34 (4978)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Uppsagnir hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.

514. mál
[12:47]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli hefur fækkað um 20%. Fimmti hver starfsmaður frá 2004 á að fara, og skylt að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að lesa þær tölur frá bandaríska sjóhernum og hvað úttektarnefnd bandaríska sjóhersins ætlast fyrir með slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli, en því er vissulega haldið uppi af varnarliðinu.

Manni verður á að spyrja í sakleysi sínu hvort hæstv. utanríkisráðherra hafi einhverja skoðun á því hvað þarna eigi að vera margir menn og hvort hann hafi látið kanna það eða einhverjir af starfsmönnum hans í ráðuneytinu hvað þarf marga menn að lágmarki til að halda uppi hinum borgaralega þætti í fluginu, vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur gefið kost á því að taka að sér eða til okkar Íslendinga hluta af kostnaði við flugvöllinn. Þá spyr maður auðvitað: Bíddu, eigum við t.d. að taka að okkur að halda uppi einhverju af slökkviliðinu og hvað er það þá mikið? Hvert er það lágmark sem íslenska utanríkisráðuneytið telur að eigi að vera á vellinum af þessum starfsmönnum?