Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 13:39:02 (5002)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:39]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra:

Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju? Og hvernig hefur hann beitt sér ef hann hefur á annað borð beitt sér í málinu?

Fyrirspurnin varðar réttindamál bænda og landeigenda og ætti því að vera eitt af þeim málefnum sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir. En það verður að segjast eins og er, því miður, að ég hef ekki orðið var við það að ráðherra hafi beitt sér með neinum hætti í málinu. Það er æ undarlegra í því ljósi að fyrir liggur flokkssamþykkt Framsóknarflokksins í málinu sem hljóðar svo:

„Útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný …“

Frá upphafi hafa fjölþættar sjávarnytjar fylgt jörðum á Íslandi, bæði innan landamerkjajarðanna, þ.e. innan netlaga, hafsvæði sem liggur 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og síðan almennur réttur til sjósókna. Ríkisstjórn kvótaflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa reynt að gera þennan rétt að engu. Með lögum um stjórn fiskveiða hafa flokkarnir ekki einungis komið í veg fyrir að jarðirnar hafi getað nýtt sér almennan rétt til sjósóknar heldur einnig gengið á einkarétt og einkalönd jarðanna og við það verður ekki unað. Það er æðiundarlegt að verða vitni að því að flokkur sem hefur löngum kennt sig við að vera málsvari bænda skuli ganga svo fram fyrir skjöldu að ganga á einkalönd bænda með því að svipta þá rétti til sjósóknar í einkalöndum sínum eða 115 m út frá stórstraumsfjöruborði.

Þau rök sem hafa verið færð fyrir að taka umrædd réttindi af sjávarjörðum eru eitthvað á þá leið að um sé að ræða fórnarkostnað fyrir kvótakerfið. Því kvótakerfi hefur ekki mátt hrófla við og hafa menn þá jafnvel gengið á réttindi og einkalönd bænda í því efni að halda kvótakerfinu óskertu. En það er umhugsunarefni að þetta kerfi hefur í engu skilað og það að fórna einkalöndum bænda án þess að nokkrar bætur komi fyrir er með ólíkindum fyrir kerfi sem hefur skilað helmingi minni afla á land og þorskstofninn er umtalsvert minni. En því miður virðist kvótakerfið vera svo heilagt hjá Framsóknarflokknum, enda er sjálfur formaður flokksins guðfaðir kerfisins, að ekki megi hrófla við því með nokkrum hætti heldur eigi að ganga á lögboðinn eignarrétt bænda og mér finnst það með ólíkindum.