Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 13:47:01 (5005)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:47]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Kannski er sú skýring á því að hæstv. ráðherra telji þetta ekki í sínum verkahring að hann mun vera alinn upp nokkuð langt frá sjó. (Gripið fram í.) Ég hygg að þeir bændur sem eiga land að sjó skilji vel það sem hér er verið að tala um. Mér finnst hæstv. landbúnaðarráðherra eiga að hafa vakandi auga með öllum hlunnindum og öllum réttindum bænda og hafa á því skoðun hvernig farið er með bændur við aðra lagasetningu en þá sem vill þannig til að heyrir undir ráðuneyti hans. Ég get ekki séð annað en að það sé fullkomlega í hans verkahring að fylgjast með þessum hlutum og hjálpa bændum við að ná rétti sínum ef þeir telja á sér brotið, sem sannarlega er. Lögin um stjórn fiskveiða hafa óumdeilanlega tekið réttindi frá eigendum sjávarjarða. Á því er enginn vafi.