Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 13:49:33 (5007)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Útræðisréttur strandjarða.

524. mál
[13:49]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Svar ráðherra endurspeglaði togstreituna sem er í þessum málum milli ráðuneyta og hve mikilvægt er að sameina landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í eitt atvinnuvegaráðuneyti til að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig í stjórnkerfinu en þvælist ekki fyrir ráðherrum í jafnmikilvægu máli og þessu.

Um leið harma ég það hve lítils áhuga og skilnings virtist gæta á þessu grundvallarmáli hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Þetta tilheyrir og á að tilheyra grundvallarréttindum jarðanna, þ.e. að þeim fylgi útræðisréttur, og ég skora á ráðherrann að herða upp hugann þó að togstreitan sé uppi milli ráðuneytanna og hlutirnir þvælist þar fyrir mönnum og berjast með bændunum í þessu máli. Þetta er mikilvægt hagsmunamál fyrir þá sem eiga þarna hlut að máli. Því skora ég á hann að taka sér tak.