Endurheimt votlendis

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 14:11:25 (5018)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Endurheimt votlendis.

532. mál
[14:11]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Hann fór á afar yfirgripsmikinn hátt yfir störf þessarar nefndar sem sannarlega hefur unnið gífurlega mikið og öflugt starf og það var mjög fróðlegt og gott að fá þær upplýsingar hingað inn.

Hins vegar svaraði hann ekki annarri spurningunni, sem er í mínum huga eitt af lykilatriðum þessa máls, þ.e. hversu mikið hefur verið endurheimt af því votlendi sem ræst var fram á síðustu öld og hversu stór hluti þess er sjálfstætt verkefni. Mig grunar að stærsti hlutinn af því sem framræst hefur verið hafi verið framræst vegna þess að það er verið að fórna nýjum votlendissvæðum. Mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra ástæða fyrir mig til að tortryggja þetta eða halda þeirri trú minni áfram að sáralítið eða ekkert hafi verið endurheimt af votlendissvæðum nema til að borga fyrir nýjar framkvæmdir og það finnst mér auðvitað verulega miður. Ég verðum að standa okkur betur en þetta, og að 2,1 millj. kr. skuli hafa farið í beinar aðgerðir síðan 1996 er náttúrlega bara til háborinnar skammar.

Auðvitað fagna ég yfirlýsingu hæstv. landbúnaðarráðherra um að hann vilji auka og efla þetta starf og ég fullyrði að hann á marga mjög kröftuga bandamenn í þeim efnum. Ég skora á hæstv. landbúnaðarráðherra að koma fram með þingsályktunartillögu, sem fengist samþykkt á þinginu, sem fæli í sér áætlun um endurheimt votlendissvæða, markmið um hverju við ætluðum að ná með því og hvaða svæði við ætluðum að endurheimta og ekki síst hvaða aðferðum við ætluðum að beita við endurheimtina. Þetta er verulega þýðingarmikið og hæstv. landbúnaðarráðherra fengi heilan her bandamanna með slíkri þingsályktunartillögu.