Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Miðvikudaginn 23. febrúar 2005, kl. 14:49:02 (5037)


131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:49]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram að það sem gert hefur verið í undirbúningi þessa stóra máls hefur verið þannig að hvert stig hefur verið kynnt í ríkisstjórn. Það er ekki rétt að það séu bara heilbrigðisráðuneytið og Landspítalinn sem hafi fjallað þarna um. Skýrslur þær sem hafa verið gerðar hafa verið kynntar í ríkisstjórn jafnóðum. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það verður auðvitað kynnt. Það er ekki búið að gera meira í þessu máli en að ákveða að fara í samkeppni um deiliskipulag á lóðinni. Þess vegna er ekki búið að ákveða hvernig hús verða þar byggð, hversu mörg eða hvert byggingarmagnið verður. (Gripið fram í: En það verður í …) Þarna er búið að taka ákvörðun um að fara í deiliskipulag á lóðinni við Hringbraut, já, og semja við Reykjavíkurborg um byggingarmagn og mörk lóðarinnar. Þetta hefur allt saman verið kynnt, bæði opinberlega og í ríkisstjórn.

Það er alveg ljóst, og ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að það er skynsamlegt að sameina sjúkrahúsin á einum stað. Auðvitað er stefnt að því. Síðan get ég tekið umræðu við hv. 8. þm. Norðvest., Jón Bjarnason, um fjármögnun sjúkrahúsanna í landinu. Ég hef bara ekki tíma til að taka hana í fyrirspurnatíma en ég er alveg óhræddur við að taka slíka umræðu við hv. þingmann, og meira en það.

Ég undirstrika að þetta er stórt verkefni og hvert einasta skref sem þarna verður stigið verður kynnt í ríkisstjórn og fjárlaganefnd þegar sá tími er kominn.