Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 13:14:56 (5091)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:14]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki langt síðan íslenska friðargæslan var formlega stofnuð, í september árið 2001. Strax í upphafi tók stefna og starfsemi íslensku friðargæslunnar mið af jafnréttis- og kynjasjónarmiðum enda voru verkefni hennar af þeim toga.

Það eru fáir í dag sem efast um gott starf friðargæslunnar nema kannski hv. þingmenn Vinstri grænna en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur undanfarið viljað tala um íslensku friðargæsluna sem íslenskan her sem er algjörlega út í hött. Nú bregður svo við að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vill ræða hér um jafnréttissjónarmið friðargæslunnar sem að mínu mati er klárlega stefnubreyting. Ég fagna því að viðkomandi flokkur vilji ræða málefnalega um friðargæsluna og hætta að vega að okkar góða fólki sem er í íslensku friðargæslunni og stundar störf sín víða um heim.

Varðandi starf friðargæslunnar vil ég t.d. nefna gott starf Íslendinga í UNIFEM í Kosovo. Íslendingar njóta mikillar virðingar fyrir þátttöku í uppbyggingarstarfi þar, ekki síst vegna hjálpar til kvenna í stríðshrjáðum löndum. Fjórir Íslendingar hafa gegnt verkefnisstjórastöðu í UNIFEM í Kosovo, allt konur.

Síðustu ár hafa stjórnvöld frekar beint framlagi Íslands að ákveðnum verkefnum og tel ég það jákvæða þróun. Verkefnin sem hafa orðið fyrir valinu eru þó frekar karllæg, þ.e. umsjón með flugvöllum, og hafa þau verkefni verið leyst vel af hendi. Eðli verkefnanna er slíkt að dregið hefur að einhverju leyti úr möguleikum kvenna til að koma að þeim. Þó tel ég að það geti vel breyst. Við þurfum ekki annað en að fylgjast með auknum fjölda kvenna í t.d. verk- og tæknifræðinámi og gefur það fyrirheit um að fleiri konur geti komið að verkefnum friðargæslunnar ef þau haldast óbreytt sem við vitum þó ekkert um.