Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 13:37:13 (5097)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[13:37]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt í upphafi ræðu minnar að þakka stjórn þingsins fyrir það skipulag að hafa ekki lokið 2. umr. fyrr en tryggt væri að hæstv. menntamálaráðherra gæti verið viðstödd umræðuna. Hún var einmitt viðstödd umræðuna þegar hún hófst fyrir hádegi.

(Forseti (HBl): Hæstv. menntamálaráðherra er í húsinu og ég hygg að hún fylgist með því sem fram fer.)

Já, ljómandi.

(Forseti (HBl): Ég skal samkvæmt beiðni hv. þingmanns láta gera henni aðvart um að umræðan standi yfir en ég hygg að hæstv. menntamálaráðherra hafi rétt vikið sér frá.)

Ljómandi, herra forseti. Ég mun nefnilega þurfa að spyrja hæstv. ráðherra örfárra spurninga. Ég þarf út af fyrir sig ekki að byrja á því í ræðu minni en óska eftir að það sé tryggt að hæstv. ráðherra heyri spurningarnar svo að svör við þeim berist örugglega inn í umræðuna. Það er býsna mikilvægt að mínu mati og ég þakka hæstv. forseta fyrir viðbrögðin.

Umræða um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík er búin að standa nokkuð og hér er langt komin 2. umr. um afnám laga um Tækniháskóla Íslands sem nauðsynlegt er ef þessi gjörningur á að ná fram að ganga.

Það eru auðvitað býsna mörg áleitin mál sem koma upp þegar málið er rætt. Vissulega hefur mikið verið rætt um eignarformið og það er trúlega það stærsta sem hér þarf að ræða. Það er einnig eðlilegt að mismunandi skoðanir hafi komið fram varðandi fyrirkomulag á tæknifræðinámi og það var t.d. athyglisvert að talsmaður Framsóknarflokksins í menntamálanefnd lagði mikla áherslu á að verið væri að tryggja meiri fjölbreytni í því námi. Það er akkúrat varðandi þann þátt sem nauðsynlegt er að hæstv. menntamálaráðherra svari nokkrum spurningum. Enn fremur þarf að ræða útfærslur á fyrirliggjandi samningum og yfirlýsingum sem gefnar hafa verið, m.a. varðandi skipan háskólaráðsins sem töluvert hefur verið rætt um. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að líta yfir sviðið í heild sinni, þ.e. heildarstefnumótun háskólanáms á Íslandi sem væri æskilegt að væri tengt þeirri umræðu sem hér fer fram.

Ég vil þó byrja á því að ræða eignaformið og hvernig það tengist þeim lögum sem nú gilda um háskóla. Í 3. gr. laga um háskóla segir, með leyfi forseta:

„Ríkisreknir háskólar eru sjálfstæðar ríkisstofnanir sem heyra stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og lúta stjórn samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla. Háskólar geta verið sjálfseignarstofnanir og starfa þá eftir staðfestri skipulagsskrá. Heimilt er einkaaðilum að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Allir háskólar skulu hafa sjálfstæðan fjárhag gagnvart ríkissjóði.“

Það er augljóst mál þegar þessi grein er lesin og þegar farið er yfir umræður á Alþingi þegar lögin voru samþykkt að enginn virðist hafa viljað eða haft hugsun á að vekja athygli á því að skilja mætti þessa grein eins og nú er verið að gera með því lagafrumvarpi sem hér liggur fyrir, og þeim samþykktum og yfirlýsingum sem því fylgja, þ.e. að einkaaðilar gætu rekið háskóla sem hlutafélag.

Það getur ekki verið tilviljun að hér er þessi setning:

„Háskólar geta verið sjálfseignarstofnanir og starfa þá eftir staðfestri skipulagsskrá.“

Þetta rekstrarform er hið eina sem nefnt er í greininni. Síðan kemur að vísu ein setning: „Heimilt er einkaaðilum að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra.“ Það er augljóst mál þegar farið er yfir umræður á Alþingi 1997 að þá hafa menn skilið það svo að einkaaðilar mættu eingöngu stofna sjálfseignarstofnanir um rekstur háskóla.

Það er hins vegar ekki hægt bara út frá orðanna hljóðan að segja að það sem hér er nú verið að boða standist ekki lögin. Þess vegna, herra forseti, hafa fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd lagt fram breytingartillögu við sjálf lögin um háskóla til að taka af allan vafa um að eingöngu það form eigi að ríkja varðandi rekstur háskóla, nákvæmlega eins og andi laganna í raun og veru er. Vegna ónákvæmni í orðalagi eða vegna þess að einhverjir ætluðu sér að lauma þessu inn án þess að ræða það sérstaklega er opin glufa. Þegar mælt var fyrir frumvarpinu hefði a.m.k. verið eðlilegt að sérstök athygli væri vakin á því að með þessu væri hægt að taka upp hlutafélög á háskólastigi. Ég er samt ekki viss um að árið 1997 hafi nokkrum manni dottið það í hug og þess vegna hafi menn ekki haft varann á. Ella hefðu þeir haft orðalagið skýrara.

Það er algjörlega nauðsynlegt að þeir aðilar sem nú eru að undirbúa stofnun þessa sameiginlega háskóla geri sér grein fyrir því að með þessari breytingartillögu fulltrúa Samfylkingarinnar í menntamálanefnd er verið að gefa merki um það hvernig við munum nálgast þetta málefni þegar fulltrúi okkar er sestur í stól menntamálaráðherra. Þessir aðilar verða að gera sér fyllilega grein fyrir því að þá verði lögunum breytt á þennan hátt nái þessi tillaga ekki fram að ganga í þessari atrennu. Ég geri þó að sjálfsögðu ráð fyrir því og geri mér vonir um að meiri hlutinn á þinginu átti sig á því að við þurfum frið um rekstrarform háskóla.

Sjálfseignarstofnunarformið hefur sýnt það og sannað, ekki bara á Íslandi heldur víðast hvar í heiminum, að það er hið æskilega form fyrir rekstur háskóla. Það er t.d. engin tilviljun að Danir hafa ákveðið að hafa alla sína háskóla þannig, líka þá sem hafa verið reknir af ríkinu. Með því er fundin besta tryggingin fyrir öllu því frelsi sem menn telja æskilegt að háskólar búi við. Þess vegna hafa Danirnir valið það form. Við getum auðvitað velt því fyrir okkur, og eigum að gera það þegar við förum að skoða háskólastigið allt saman, hvort við eigum að fara sömu leið og Danir. Við þurfum bara að fara í gegnum þetta mál allt saman og skoða það, ekki að fara þá leið sem núverandi ríkisstjórn hefur valið, að taka alltaf einn og einn bita í einu og horfa aldrei yfir sviðið í heild sinni heldur krukka alltaf hér og þar án samhengis í hlutunum.

Herra forseti. Ég ítreka að breytingartillagan skiptir miklu máli í meðferð málsins. Með henni er Samfylkingin að boða hvernig hún vill að háskólar séu reknir, að þeir eigi að vera sjálfseignarstofnanir ef þeir eru ekki reknir af ríkinu sem ríkisháskólar. Breytingartillagan er ekki einhver tillaga sem dúkkar bara upp heldur er hún niðurstaða eftir skoðun á málinu að þannig viljum við að orðalagið sé í lögum um háskóla.

Eðlilegt er að þeir aðilar sem nú vinna að sameiningu skólanna átti sig á því að þegar samfylkingarmaður sest í stól menntamálaráðherra verða samningar við þann skóla teknir upp, teknar verða upp viðræður um að taka þann samning upp og það verður að sjálfsögðu óskað eftir því að þetta form verði tekið upp. Ég trúi því ekki að það verði neitt vandamál, m.a. vegna þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór í nokkuð langri ræðu í morgun yfir að það skipti engu máli hvort um hlutafélag væri að ræða eða sjálfseignarstofnun. Það væri enginn munur á því. Hv. þingmaður gekk að vísu svo langt að segja að okkur kæmi þetta ekkert við. Þar erum við ekki sammála. Okkur kemur þetta við vegna þess að við viljum tryggja að háskólar landsins búi við sem bestar aðstæður þannig að þeir nái markmiðum sínum sem best fram. Við þurfum að forðast þær hættur sem geta verið í mismunandi rekstrarformum og augljóst mál að ákveðnar hættur liggja í hlutafélagaforminu.

Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að það er margt eins í rekstrarformunum en það eru ýmsar hættur sem menn búa við þegar hlutafélagaformið er veitt … (Gripið fram í.) M.a. þær sem komu fram í ræðu hv. þingmanns, að það væri enginn munur á því hvort menn rækju háskóla eða fyrirtæki, en það er gífurlegur munur á því. Ég vil ekki eyða mjög löngum tíma í að endurtaka það sem hv. þm. Mörður Árnason gerði ágætlega í umræðunni t.d. með því að tengja saman hið akademíska frelsi og rekstrarformið, sem skorti í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Það er býsna mikilvægt að það sé skoðað í samhengi. Þess vegna segi ég að sjálfseignarstofnanir tryggja best það frelsi sem háskólar þurfa að búa við. Þar með erum við búin að lágmarka þær hættur sem geta fylgt of nánum og sterkum tengslum eignaraðilanna við rekstur skólans. Þetta á ekki að velkjast fyrir mönnum enda held ég að ef sannfæringarkrafturinn næði út fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar væri hlutafélagaformið ráðandi form í rekstri háskóla, ráðandi form í heiminum. Hv. þingmenn hljóta að velta því fyrir sér hvernig standi á því að svo er ekki. Hvernig stendur t.d. á því að rekstrarformið er ekki einu sinni ráðandi í fyrirheitna landi sumra hv. þingmanna, Bandaríkjunum? Hvernig stendur á því? Það er auðvitað reynslan sem segir mönnum að annað form hafi reynst betur.

Við getum líka farið yfir sérkennilegar sendingar sem hv. menntamálanefnd hefur fengið. Ýmis viðhorf vekja ugg í mínu brjósti sem koma fram í þeim pappírum sem meiri hluti nefndarinnar segir í áliti sínu að hafi dugað þeim fyllilega til að sannfærast um að hlutafélagaformið væri betra en sjálfseignarstofnunarformið. Formaður háskólaráðs, Sverrir Sverrisson, segir í bréfi til hv. menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Þá var það mat aðila“ — þ.e. þeirra sem vilja koma að rekstri hins nýja háskóla — ,,að með þessu félagaformi væri stjórnendum skólans ljóst að gerð væri krafa um hagkvæmni í rekstri og skynsamlegri meðferð fjármuna, eins og í venjulegum atvinnufyrirtækjum.“

Herra forseti. Þetta er mjög athyglisvert sjónarmið að í hinum formunum sé ekki gerð krafa um hagkvæmni í rekstri né skynsamlega meðferð fjármuna. Er þetta þannig? Ja, það er greinilega mat formanns háskólaráðs hins nýja skóla að ríkisháskólarnir séu ekki reknir með hagkvæmni í huga og það sé ekki skynsamleg meðferð fjármuna í þeim skólum. Og ekki bara það. Það sé ekki heldur í sjálfseignarstofnunum, þ.e. að þeirra viðhorfa hafi ekki gætt í Háskólanum í Reykjavík. Þetta eru tíðindi. Þetta er nýtt, að vandinn við sjálfseignarstofnunina Háskólann í Reykjavík sé að þar hafi ekki verið gætt hagkvæmni í rekstri og ekki verið beitt skynsamlegri meðferð fjármuna. Það er algerlega með ólíkindum að þau rök séu notuð til að segja að menn þurfi að stofna hlutafélög um rekstur háskólans því við vitum auðvitað að þetta er ekki rétt. Hagkvæmni er gætt og það er skynsamleg meðferð fjármuna í öllum þessum stofnunum.

Formaður háskólaráðsins segir einnig í sama bréfi, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að menn velti fyrir sér hvort heppilegra hefði verið að skilja eignarhaldið á skólanum með skýrari hætti frá þátttakendunum t.d. með því að setja reksturinn í sjálfseignarstofnun.“

Þetta finnst mér virðingarvert. Formaður háskólaráðs segir að eðlilegt sé að menn velti þessu fyrir sér og ég held að það sé eðlilegt að menn velti þessu fyrir sér í fyllstu alvöru. Það er nefnilega ekkert vandamál fyrir þessa ágætu aðila sem koma jákvætt að málinu og vilja gera góða hluti í rekstri skólanna, sem er mjög mikilvægt og ég hef áður í ræðu minni fjallað um mikilvægi þess að tryggð séu góð tengsl við atvinnulífið við rekstur skólans. Þeir aðilar hefðu að sjálfsögðu getað stofnað sérstakt félag um allar eignirnar en haft reksturinn í sjálfseignarstofnun. Þar með hefði málið verið í allt öðrum farvegi og að mínu mati miklu álitlegri.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að staldra mjög lengi við bréfaskriftirnar en það vakti alveg sérstaka athygli mína og væri forvitnilegt að heyra ef einhverjir hv. þingmenn sem sæti eiga í menntamálanefnd hafa fengið skýringu á einni setningu í bréfi til menntamálanefndar frá Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, og væntanlegs rektors hins nýja háskóla. Þar er verið að fjalla um sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið og rétt að vekja athygli á því ef það er ekki öllum kunnugt að Háskólinn í Reykjavík hefur verið rekinn sem sjálfseignarstofnun. Enginn maður hefur nokkurn tíma heyrt um einhvern vandræðagang frá stofnuninni við að hún væri sjálfseignarstofnun, aldrei, ekki eitt einasta orð. Síðan kemur þessi setning í bréfinu fram, með leyfi forseta:

„Það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti“ — þ.e. sem sjálfseignarstofnun. Þetta eru engin smá orð frá rektor í sjálfseignarstofnun (Gripið fram í: Lestu alla setninguna.) þannig að maður skyldi ætla (Gripið fram í: Lestu samhengið.) að hér væri mikill rökstuðningur á ferðinni. Ég vil verða við óskum hv. þingmanns og lesa alla setninguna til enda, með leyfi forseta:

„Það er afar ábyrgðarlaust að reka háskóla með þeim hætti, sérstaklega þegar hlutverk háskólans er að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og taka að sér veigamikið hlutverk á háskólastigi með samruna HR og Tækniháskóla Íslands (THÍ).“

Er það ábyrgðarlaust af því að þessir tveir háskólar eru að renna saman eða vegna þess að hlutverkið er sérstaklega að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs? Eru ekki einhverjir aðrir háskólar að því líka? Ég ætla rétt að vona að einhverjir háskólar hér á landi hafi það hlutverk að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ég ætla rétt að vona að sjálfseignarstofnunin, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, sé að því. Samkvæmt þessu er ábyrgðarlaust að það skuli vera gert með þessu fyrirkomulagi. Þetta þykir mér algerlega með ólíkindum og ég heyri að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ætlar að útskýra það fyrir okkur á eftir hvernig setningin var skýrð í menntamálanefnd. Við verðum óhjákvæmilega að fá fullnægjandi skýringu á þessu því þetta eru engar smá ásakanir í garð þeirra stofnana sem eru reknar og bréfritarinn rekur sjálfur. Ég átta mig ekki á því hvaða gífurlegi munur verður á því að reka sameiginlega háskólann og þann háskóla sem rektor rekur í dag, en ef til eru skýringar á því væri mjög ánægjulegt að fá að heyra þær.

Það væri líka æskilegt að fá að heyra frá þeim hv. þingmönnum sem styðja frumvarpið algerlega óbreytt hvað sé nákvæmlega að í rekstri sjálfseignarstofnunar. Hvaða vandamál eru á ferðinni? Ef það eru einhver vandamál er ekki hægt að gera einhverjar breytingar t.d. á lögum um sjálfseignarstofnanir til að koma til móts við þau, og hvernig stendur á því að þau vandamál hafa aldrei komið fram? (Gripið fram í: Af hverju er það form betra?) Er hv. þingmaður enn að spyrja af hverju það form sé betra? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður fær svör en heyrir ekki svör. Ég benti hv. þingmanni á af því að ég vildi ekki taka þátt í því að vera með eitthvert málþóf varðandi málið því það er auðvitað ekki þess eðlis að það þurfi, (Gripið fram í.) en hv. þingmaður virðist stöðugt vilja fá sömu svörin og spyr þráfaldlega sömu spurninga.

Hv. þm. Mörður Árnason fór mjög nákvæmlega yfir málið í ræðu sinni í síðustu viku og ég benti á það áðan til að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að það sem væri afskaplega stórt í því samhengi væri að sjálfseignarstofnunarformið tryggir langbesta frelsið sem háskólar þurfa að hafa í rekstri sínum, m.a. hið akademíska frelsi. Það er langbest tryggt með sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu. Þetta er meginatriðið. Auðvitað er hægt að fara í fleiri smáatriði en ég er ekki viss um að hv. þingmaður átti sig á því hversu mikilvægt þetta er vegna þess að ræða hv. þingmanns áðan gekk út á það að það væri enginn munur á að reka háskóla og hvert annað fyrirtæki sem á að skila hagnaði. Við vitum og hv. þingmaður veit það, hann fór yfir það í morgun, að hlutafélagaformið er sniðið að því að reka fyrirtæki sem eiga að skila hagnaði og að áliti flestra býsna gott form til að ná meginmarkmiðinu, að skila hagnaði. Menn geta svo auðvitað, eins og gert er varðandi skipulagsskrána sem einkahlutafélagið á að hafa, sett í 2. gr. að ef einhver hagnaður verði skuli hann renna til skólans. En ef menn ætla ekki að hafa neinn hagnað af þessu skilur maður ekki enn af hverju ekki er hægt að hafa sjálfseignarformið. Ég vil þess vegna biðja hv. þingmenn sem hafa tekið þessa trú að reyna að færa einhver rök fyrir því, ekki segja bara: Þetta er betra, það er eitthvað annað sem er verra. Ég tala ekki um þegar rökin eru þau eins og ég benti á áðan hjá rektornum. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig standi á því að ekki er hægt að færa önnur rök en að þetta sé ábyrgðarlaust vitandi það að verið er að reka háskóla vítt og breitt um heiminn með því formi. Það er líklega allt ábyrgðarlaus rekstur.

Þetta eru hreinlega ekki rök. Þeir ágætu aðilar sem ákváðu með góðum vilja að koma að því að sameina háskólana og leggja fjármuni til þess koma auðvitað úr því rekstrarumhverfi að þeir þekkja hlutafélagaformið. Mér finnst mjög eðlilegt að þeir aðilar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir vilji vinna í því umhverfi sem þeir þekkja. Það sem hefur hins vegar skort í umræðuna er leiðbeining menntamálaráðuneytisins og upplýsingaskylda ráðuneytisins til þessara aðila um að það form sé ekki heppilegt til að reka háskóla. Annað form er heppilegra. Þar átti ráðuneytið að sjálfsögðu að hafa upplýsingaskyldu og leiðbeiningarskyldu. Ég er viss um að þessir ágætu aðilar hefðu tekið þeim rökum. En málið er komið svo langt að menn upplifa það einhvern veginn að þeir þurfi að fara að bakka ef þeir gera breytinguna. Ég mundi ekki líta svo á. Ég held að þarna hafi skort upplýsingar og menn verði menn að meiri að viðurkenna að nú þegar þeir eru búnir að fá allar upplýsingar í málinu sé hægt að breyta ákveðnu formi.

Það er algerlega kristaltært að breytingartillaga Samfylkingarinnar er ekki bara einhver einstök breytingartillaga við eitthvert léttvægt mál heldur boðar hún stefnu flokksins gagnvart rekstrarformi á háskólastigi. Það þýðir að sjálfsögðu að þegar Samfylkingin verður aðili að ríkisstjórn verður þetta eitt af þeim málum sem þar verða tekin upp. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvernig á því stendur að þeir aðilar sem eru að fara í þetta mikilvæga verkefni vilji ekki hafa sátt strax í upphafi um rekstrarform skólans. Atriði sem að mati ýmissa þingmanna í meiri hlutanum skiptir greinilega litlu máli. Af hverju var þá ekki náð sátt um rekstrarformið til að tryggja að þetta verði allt sem best og sem mest samstaða um, ef þetta skiptir svona litlu máli? Það er algerlega óskiljanlegt og því miður hef ég ekki enn heyrt fullnægjandi rök fyrir því að velja þurfi þetta form. Mér sýnist því miður sú kenning mín um hvernig þetta hafi orðið til vera býsna líkleg og að þau rök sem síðan hafa komið fram og ég hef m.a. vitnað til séu fyrst og fremst eftirárök til að reyna að verja sig í málinu. Þetta hafi ekki verið hugsað þannig í upphafi.

Það væri t.d. fróðlegt að fá að heyra rökstuðning fyrir því sem kemur fram m.a. í þessum bréfaskiptum að ein meginröksemdin, það sem er aðallega breytingin, sé að það hafi bara verið Verslunarráðið sem hafi komið að Háskólanum í Reykjavík og þess vegna hafi verið hægt að nota sjálfseignarstofnunarformið en nú séu þetta orðnir þrír aðilar og þá gangi ekki sjálfseignarstofnunarformið. (Gripið fram í.) Ég hef lesið pappírana, hv. þingmaður, og þess vegna þekki ég rökstuðninginn og ég er að benda á hversu haldlítill hann er. Hvaða munur er á því hvort það er einn eða þrír aðilar sem standa að sjálfseignarstofnun? Ef menn fara af heilum hug í þetta verkefni og vilja gera það sem best sé ég engin rök í því að ekki megi reka þessa stofnun sem sjálfseignarstofnun þó að aðilarnir séu þrír, fimm, sjö, níu, það skiptir engu máli um fjöldann, ekki nokkru máli, nema viðhorfið sé það sem hv. þingmaður lýsti af sinni fullkomnu hreinskilni að það eigi að reka háskóla eins og hvert annað fyrirtæki úti í bæ. Og þar gerir að sjálfsögðu enginn kröfu um að fyrirtækið sé rekið algjörlega í frelsi og óháð eigandanum, það gerir enginn kröfu um það, ekki nokkur maður. En það vill svo til að þannig hafa háskólar þróast og það hefur verið niðurstaðan að þannig skiluðu þeir hlutverki sínu best. Ég vænti þess að þeir sem eru að fara út í þennan rekstur muni komast að því, ef þeir hafa ekki gert það nú þegar í hjarta sínu, að þannig munu þeir þurfa að breyta háskólanum ef þeir gera það ekki nú áður en þeir fara í gang.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að staldra mikið meira við þetta atriði. Það var býsna vel farið yfir þennan rökstuðning, eins og ég sagði áðan, í ágætri ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi rekstrarformið og frelsi háskóla, hvað það skiptir miklu máli þar. Ég ætla þó aðeins rétt í lokin að nefna eitt atriði enn varðandi rekstrarformið og varðandi það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom einmitt inn á, að það væri nær enginn munur á hlutafélagalögunum og lögunum um sjálfseignarstofnanir, og nefndi m.a. að það þyrfti tvo þriðju hluthafa … (SKK: Lítill munur hvað varðar samþykktirnar.) Varðandi samþykktirnar, t.d. hvað snertir breytingar á þeim o.s.frv. og það er margt hárrétt í því, en munurinn er auðvitað sá að sjálfseignarstofnun er ekki stofnun sem gert er ráð fyrir að skili hagnaði en hlutafélagaformið gengur út á það. Þrátt fyrir að í 2. gr. sé tilgreint hvernig fara skuli með hagnað, ef hann verður til, þá segir það auðvitað að þessar breytingar sem er auðvelt að gera geti náð til þeirra greina líka þar. Ég þekki það að vísu ekki, hv. þingmaður kann kannski betur hlutafélagalögin, en væri þá ekki hægt að setja það hreinlega inn í samþykktirnar að þessari grein megi þó aldrei breyta? Það er ekki gert og ég vona að hv. þingmaður geti upplýst okkur um það hvort skýringin á því sé sú að það megi hreinlega ekki samkvæmt lögunum. Mér þykir það sérkennilegt ef það má ekki. Það væri þó strax orðin meiri trygging ef sett væri inn að það mætti aldrei, þrátt fyrir ákvæði hlutafjárlaga um hvernig megi breyta, breyta 2. gr. En það er ekki inni.

Við getum síðan rætt um það sem tengist þessu auðvitað líka, sem er skipun háskólaráðsins. Þar eru atriði sem er rétt að vekja athygli á og nauðsynlegt að fulltrúar meiri hlutans í menntamálanefnd útskýri nokkuð hvað þeir eiga við vegna þess að ég sé að meiri hlutinn er sammála mér varðandi skipun háskólaráðsins. Mér þykir vera skautað nokkuð léttilega fram hjá þessum mikilvæga þætti vegna þess að í meirihlutaálitinu segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að eðlileg þátttaka starfsmanna og nemenda í stjórn skólans verði tryggð og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur.“

Bíðum nú við. Hvað er eiginlega átt við með þessu? Hér segir meiri hlutinn að þátttaka starfsmanna og nemenda við stjórn skólans sé eðlileg. Meiri hlutinn er sem sagt á því að það sé eðlilegt að starfsmenn og nemendur eigi fulltrúa í stjórn skólans, fulltrúa í háskólaráðinu, og segja síðan: „... verði tryggð og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur.“

Hvernig stendur á því að metnaðarleysi meiri hlutans er algjört í málinu? Við erum trúlega nær öll sammála um að þetta sé nauðsynlegt en af hverju lætur meiri hlutinn duga að orða þetta svo að fundinn verði eðlilegur farvegur? Hvað er átt við? Hefur meiri hlutinn einhverja tryggingu fyrir því að eftir þessu verði farið? Af hverju fór meiri hlutinn ekki fram á að samþykktunum yrði breytt þannig að hægt væri að sjá það svart á hvítu hvernig þetta væri tryggt?

Hér hefur meiri hlutinn væntanlega áttað sig á því að allur þingheimur er sammála um þetta mál. Hvaða vandamál voru þá í því að fá þetta tryggt? Af hverju þetta kurteislega orðalag „og að þeim samskiptum verði fundinn eðlilegur farvegur“? Af hverju var hann bara ekki fundinn áður en málið kom til 2. umr.?

Ég nefndi í upphafi að það væri nauðsynlegt að skoða heildarstefnumótun á háskólastigi og taka ekki ákvarðanir í bútum. Ég held að það sé orðið mjög brýnt, ekki bara varðandi rekstrarform og annað þess háttar heldur líka varðandi það hvernig við framkvæmum hluti eins og skólagjöld í háskólum á Íslandi. Sú mismunun hvernig það er framkvæmt gengur auðvitað ekki gagnvart nemendum og gagnvart skólum. Það er algjörlega nauðsynlegt að menn fari yfir þetta svið allt saman frá a til ö. Það á ekki að fara þá leið sem allt of margir hafa nú á tilfinningunni, þ.e. að skólagjöld verði á einhvern hátt tekin upp með þvingunum.

Með þessu frumvarpi er t.d. augljóslega verið að fjölga þeim greinum á háskólastigi sem ekki er hægt að stunda á Íslandi nema borga skólagjöld. Við þekkjum það nú þegar t.d. varðandi nemendur sem stunda nám við Listaháskóla Íslands að það nám er ekki hægt að stunda á Íslandi nema borga skólagjöld. Nú er verið að bæta tæknifræðináminu við þannig að hlutfall þeirra greina sem ekki er hægt að stunda á háskólastigi nema borga skólagjöld er að vaxa. Þetta ber auðvitað þess keim að verið sé að fara bakdyramegin inn í að koma á skólagjöldum. Það er vinnulag sem er ekki boðlegt að þannig sé staðið að málum, vegna þess að það er ekki lengur samkeppni, sem sumir hv. þingmenn nota þegar þeir segja að hægt sé að hafa þetta svona á meðan samkeppni er á milli en nú er engin samkeppni lengur. Listaháskólinn hefur ekki samkeppni, tæknifræðinámið hefur ekki samkeppni, það verður að borga skólagjöld í skólunum. Þetta er auðvitað gróf mismunun á nemendum sem eru í þessu námi. Þess vegna verður að fara yfir þetta svið í heild sinni og hafa samræmi í hlutunum. Svona ósamræmi gengur hreinlega ekki upp.

Herra forseti. Ég sé að nú gengur hæstv. menntamálaráðherra í salinn og svo glæsileg er tímasetning ráðherrans að það er einmitt nú sem ég þarf að bera fram spurningar til hæstv. ráðherra.

Það vakti alveg sérstaka athygli í byrjun 2. umr. að fulltrúi Framsóknarflokksins í menntamálanefnd hafði það sem meginrökstuðning í ræðu sinni við að styðja málið að það kæmi fram í yfirlýsingu frá menntamálaráðuneytinu að fjölbreytni væri tryggð og samkeppni væri fram undan í tæknifræðinámi.

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að vitna í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, en þar segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ég er þeirrar skoðunar að skoða beri kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum og þá sérstaklega þeim ríkisreknu til að fjölga valkostunum. Mér finnst að þetta ætti að geta gengið fljótlega, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga menntamálaráðuneytisins. Mér finnst brýnt að slíkt nám sé einnig í boði í ríkisreknum háskóla, enda er samkeppni um framboð greina eitt af því besta sem hefur hent margar greinar sem ekki bjuggu við samkeppni áður. Ég vil því hvetja“ — segir hv. þingmaður — „ríkisrekna háskóla til að hefja undirbúning og sækja um að fá að bjóða upp á tæknifræðinám hið fyrsta.“

Þetta er auðvitað hluti af röksemdinni að vegna þess að það eru skólagjöld í einum skóla þá sé boðið upp á sambærilegt nám í ríkisháskólunum til þess að fólk geti þá valið sambærilegt nám án þess að borga skólagjöld.

Ég ætla ekki á þessu stigi að vitna meira til hv. þingmanns en yfirlýsingin sem þingmaðurinn er að vitna til er send úr ráðuneytinu þann 3. febrúar sl. til menntamálanefndar. Ég verð að segja það hreinskilnislega, herra forseti, að mér finnst það býsna magnað að geta fengið þennan skilning út úr yfirlýsingunni eins og hv. þingmaður nær að gera. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að hæstv. menntamálaráðherra staðfesti það að hv. þingmaður hafi skilið yfirlýsinguna rétt og þá verð ég að segja að mér finnst málið vera örlítið öðruvísi en við höfum áætlað, ef hv. þingmaður hefur skilið þetta rétt, þ.e. að í yfirlýsingunni felist að ríkisháskólarnir hafi tryggingu fyrir því að geta tekið upp tæknifræðinám. Maður getur að vísu spurt: Til hvers er þá allur leikurinn gerður? en látum það nú vera. Sem sagt að það sé tryggt með yfirlýsingunni að ríkisháskólarnir þurfi bara að senda eitt lítið lettersbréf upp í ráðuneyti og þá geti þeir boðið upp á nám í tæknifræðum.

Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, þannig að allir hafi samhengið á hreinu að ég vitni örlítið í yfirlýsinguna frá menntamálaráðuneytinu. Þar byrjar klásúlan með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðuneytið vill einnig taka fram að í samræmi við hjálagða viljayfirlýsingu um stofnun einkahlutafélags“ — svo kemur millikafli sem ég hoppa yfir en síðan kemur aftur örlitlu neðar, með leyfi forseta: „Í yfirlýsingunni kemur einnig fram“ — og þá er vísað til þessarar hjálögðu viljayfirlýsingar um stofnun einkahlutafélagsins — „að boðið verður upp á nám í þeim greinum sem skólarnir hafa boðið, bæði á grunnstigi til BA og BS prófs og á framhaldsstigi.“ — Síðan er framhaldið: „Er að því stefnt að framboð í tæknigreinum verði eflt og aukið á komandi árum.“

Herra forseti. Er ekki eðlilegt að við mörg höfum skilið þetta paragraf þannig og þessa síðustu setningu að hún vísaði til viljayfirlýsingar um að þessi nýi háskóli ætlaði sér að efla og auka framboð í tæknigreinum á komandi árum? Auðvitað er hugsanlegt að við höfum ekki áttað okkur á því að þarna hafi væntanlega átt að vera greinaskil og að verið væri að vísa til þess sem ráðuneytið hefði á prjónunum, til stefnu ráðuneytisins, að ráðuneytið ætlaði sem sagt að efla og auka tæknifræðinám á komandi árum með því að taka það upp í fleiri háskólum. Á því virðist a.m.k. Framsóknarflokkurinn hafa byggt afstöðu sína til málsins, miðað við ræðu hv. þingmanns og talsmanns flokksins í menntamálanefnd, að með þessari setningu væri verið að tryggja það að ríkisháskólarnir gætu sent líklega einn lítinn og nettan tölvupóst upp í ráðuneyti og síðan fljótlega þar á eftir fengið svar og gætu síðan auglýst tæknifræðinám á háskólastigi með ýmsum tilbrigðum fljótlega eftir það.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hvort við höfum flest hver misskilið algjörlega þetta erindi úr ráðuneytinu og Framsóknarflokkurinn hafi hinn eina rétta skilning. Það er þá efni í nokkuð margar ræður við að ræða allt ferli málsins ef sá gjörningur að sameina þessa ágætu tvo háskóla og búa til úr þeim vonandi mjög öflugan og sterkan háskóla hafi fyrst og fremst verið til þess að taka mætti upp tæknifræðinám við aðra háskóla til að tryggja hina langþráðu samkeppni í tæknifræðinámi. Ég vona að hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um þetta. Þá gætum við rætt málið á þeim grunni. Ef þessi skilningur Framsóknarflokksins er réttur verðum við að játa það, mörg hver, að við höfum misskilið smáþátt í málinu og áttuðum okkur ekki á því að málið væri komið svo langt að ráðuneytið væri reiðubúið til að tryggja ríkisháskólunum fjármagn og allt til þess að koma tæknifræðinámi á laggirnar í þeim skólum einnig.

Herra forseti. Rétt að lokum vil ég ítreka að hér er að okkar mati um að ræða mjög stórt pólitískt mál. Hér er verið að stíga fyrstu skrefin í því að taka upp nýtt rekstrarform á háskólastigi og við höfum tekið þetta mjög alvarlega í Samfylkingunni. Við höfum farið vel yfir það. Ég rakti í byrjun ræðu minnar að m.a. hefði verið skoðuð umræðan öll frá 1977 þegar hér voru samin lög um háskóla. Við höfum mótað stefnu okkar mjög skýrt í því að við höfum komist að þeirri niðurstöðu að háskólastofnanirnar sem ekki eru reknar eins og ríkisstofnanir eigi að vera sjálfseignarstofnanir. Þess vegna er lögð hér fram breytingartillaga við lög um háskóla til að sú stefna okkar komi algjörlega skýrt fram. Það er líka heiðarlegt af okkar hálfu að gera það á þennan hátt þannig að þeir aðilar sem nú eru að vinna að undirbúningi þessa nýja háskóla viti hver stefnan er hjá okkar flokki. Þá vita þeir að hverju þeir ganga þegar að því kemur, sem stöðugt styttist í, að Samfylkingin eigi menntamálaráðherra.