Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 14:26:34 (5103)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:26]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræðir um hræðslu og fælni. Ég held að það geti út af fyrir sig átt að einhverju leyti við að menn geti haft einhvern ótta af því að verið sé að stíga þessi skref, ég tala ekki um þegar þau eru ekki betur undirbúin en raun ber vitni. Menn geta haft ákveðinn beyg af því.

Hv. þingmaður tók líka upp þessa umræðu um hótanirnar og bætti eiginlega í, sagði að umsvifalaust yrði samningum slitið. (KÓ: Þetta er satt.) Ég sagði það aldrei, hv. þingmaður. Eins og herra forseti veit sagði ég að teknar yrðu upp viðræður varðandi þá samninga sem fyrir lægju. Það væri heiðarlegt að láta þá aðila vita hver stefna okkar væri nákvæmlega í málinu. Ég sagði enn fremur að ég tryði því og treysti að þessir aðilar væru orðnir sammála okkur, þótt stutt væri í það, um að við tækjum upp slíkar viðræður. Ég trúi því að þessir aðilar sem hv. þingmaður kom inn á hafi mikla reynslu af að reka hlutafélög við allt aðrar aðstæður, þar sem eðlilegt er talið að sem allra best og nánust tengsl séu milli eigenda og rekstursins. Það er hins vegar talið mjög mikilvægt fyrir háskóla að hafa ákveðið frelsi, hafa ákveðna fjarlægð frá eigandanum til að geta starfað í frelsinu.

Þessu munu þessir aðilar væntanlega komast að þegar þeir fara í reksturinn og byrja að kynna sér málin betur. Þess vegna segi ég aftur að mér finnst að ráðuneytið hefði átt að hafa það hlutverk að hafa áhrif í þessa átt. Ég hef alltaf sagt að mér finnist eðlilegt að þessir ágætu aðilar hafi komið að málinu með þessi viðhorf vegna þess að þeir þekktu þetta. Þess vegna hefði verið eðlilegt að ráðuneytið hefði komið með leiðbeiningar um það hverjar hefðirnar væru við rekstur háskóla og af hverju hefðirnar væru þær sem þær væru. Ég er alveg sannfærður um að þá hefðu þessir aðilar breytt forminu í sjálfseignarstofnun, vandkvæðin væru engin og við sigldum góðu máli í höfn sem ætti fyrir sér bjarta framtíð.