Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 14:51:41 (5113)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:51]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Markmiðið með lagafrumvarpi því sem hér er til umræðu er að greiða götu sameiningar Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að efla þurfi verkfræði- og tæknimenntun á Íslandi. Hún hefur þar nokkuð til síns máls, þ.e. einkum þarf að fjölga tæknimenntuðu vinnuafli. Ég veit ekki betur en bæði íslenskir verkfræðingar og tæknifræðingar teljist ágætlega menntaðir.

Steinar Friðgeirsson, formaður Verkfræðingafélags Íslands, segir í grein í Morgunblaðinu þann 15. nóvember síðastliðinn frá ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands í haust. Hann segir í greininni, með leyfi forseta:

„Frá árinu 1998 hefur nemendum í verkfræðideild HÍ fjölgað stöðugt og síðastliðin fimm ár hafa nær helmingi fleiri útskrifast en árin fimm þar á undan. Nú ljúka árlega um tvö hundruð nemendur verkfræðiprófi, MS eða sambærilegu, BS-prófi í verkfræði eða tæknifræðiprófi, BS, frá íslenskum eða erlendum háskólum. Með sambærilegum nemendafjölda og nú er í tæknifræði og verkfræði tekur það okkur 10 til 15 ár að fjölga stéttunum í hlutfallslega sama fjölda af þjóðinni og nú gerist mest í nágrannalöndunum.“ — Það er vissulega of langur tími en þegar farið er af stað með breytingar í skólakerfinu, virðulegi forseti, þarf að vita nákvæmlega hvaða breytinga er þörf.

Samanburður við nágrannalönd sýnir að við stöndum þeim langt að baki í fjölda tæknimenntaðra. Sigurður Brynjólfsson, deildarforseti verkfræðideildar Háskóla Íslands, segir í umsögn til menntamálanefndar Alþingis þann 27. janúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Annars staðar á Norðurlöndum eru tæknifræðingar tvöfalt fleiri en verkfræðingar en hér er þessu öfugt farið. Það er því mun meiri þörf á að fjölga nemendum í tæknifræði en að reyna að fjölga verkfræðingum fram yfir það sem Háskóli Íslands stefnir í.“

Steinar Friðgeirsson segir í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein að á ráðstefnu félaganna hafi rannsókna- og þróunarstjórar Marels hf. og Össurar hf. staðfest að skortur væri á mönnum með verklega þjálfun og tæknimenntun fyrir fyrirtæki þeirra. Atvinnulífið kallar á menn með hagnýta tæknimenntun og því þarf skólakerfið að koma til móts við markaðinn og þörfina fyrir fjölbreytni.

Steinar segir jafnframt frá því að í dag séu 3.500 manns á Íslandi með verk- eða tæknifræðimenntun sem samt séum við ekki nema hálfdrættingar á við nágrannaþjóðir ef miðað er við höfðatölu eins og venjan er. Það er því kjörið að efla tæknifræðimenntun með sameiningu háskólanna sem um er rætt en mín skoðun er sú að verkfræðimenntun verði best efld á Íslandi með því að efla verkfræðideild Háskóla Íslands.

Sigurður Brynjólfsson, deildarforseti Verkfræðideildar Háskóla Íslands, segir í áðurnefndri umsögn, með leyfi forseta:

„Verkfræðideild bendir á að fjármunir og mannafli á Íslandi er takmarkaður. Skortur er á hæfum verkfræðikennurum og því oft erfitt að bjóða nauðsynleg framhaldsnámskeið. Það er hæpið að ætla að tveir skólar á Íslandi geti haldið uppi fullgildu meistaranámi sem stenst samjöfnuð við góða erlenda verkfræðiháskóla. Mikil nauðsyn er að nýta góða vísinda- og tækniþekkingu sem best og skapa framúrskarandi aðstöðu til rannsókna, sem standast alþjóðlegar gæðakröfur.“

Síðar í sömu umsögn sagði hann:

„Einn verkfræðiskóli verður faglega sterkari og mun geta veitt öflugri þjónustu en nokkrir dreifðir skólar sem keppa um takmarkað fjármagn. Skólinn mun geta byggt upp meiri sérhæfingu og breidd til að fást við mismunandi viðfangsefni og taka þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum á vegum ESB eða annarra alþjóðlegra samtaka sem máli skipta.“

Einnig má álykta að hinn nýi háskóli þjónaði betur samfélaginu með sterkri og sérhæfðri tæknifræðideild án samkrulls við verkfræði. eins og mér skilst að hugmyndir séu um, þ.e. að vegna smæðar deildarinnar muni þurfa umtalsverða samkennslu í verkfræði og tæknifræði.

Sigurður Brynjólfsson bendir í umsögn sinni á að hæfnisdómar núverandi lektora og dósenta við Tækniháskóla Íslands miðuðu við að þeir kenndu tæknifræði en ekki verkfræði, ekki hafi verið gerðar sömu kröfur til þeirra og gerðar væru til kennara við verkfræðideildir á alþjóðavettvangi og við verkfræðideild Háskóla Íslands. Þetta er athyglisvert, virðulegi forseti, ekki síst með tilliti til þess sem áður er komið fram, að skortur er á hæfum verkfræðikennurum á Íslandi. Ég vil á engan hátt að kasta rýrð á tæknikennara Tækniháskóla Íslands en hér er varpað fram fullyrðingu sem vert er að veita athygli.

Það er mín skoðun, ég hef látið hana í ljós áður á hinu háa Alþingi, að ekki sé nægilega vel að verkfræði búið í Háskóla Íslands. Aðbúnaðinn þar þarf að bæta með auknu fjármagni. Það kom t.d. fram í heimsókn samfylkingarmanna í Háskóla Íslands fyrir rúmu ári að ekki hefur verið hægt að endurnýja tækjakost verkfræðideildar svo viðunandi geti talist vegna fjárskorts. Það vita allir sem vita vilja að Háskóla Íslands hefur verið haldið í fjárhagskröggum árum saman. Það er ekki leiðin til að efla verkfræðinám og verkfræðikennslu, virðulegi forseti, og heldur ekki að dreifa kröftunum eins og gerist ef tekin verður upp kennsla í verkfræði við annan skóla.

Ég kem að umræðunni um sameiningu háskólanna með opnum huga. Ég ætla að láta öðrum eftir að tala um rekstrarform þótt ég telji að það skipti sannarlega máli. Það er mögulegt að með sameiningu verði háskólar öflugri, fjölbreytni námsframboðs aukist og rekstur verði betri en í minni háskólum. En það er ekki gefið að allt fáist með sameiningu háskóla.

Ég er satt að segja mjög hugsi yfir öllu talinu um að við Íslendingar eigum allt of marga háskóla og spurningu um hvort við ætlum að fara að stofna einn háskólann enn eða þegar fullyrt að litlu háskólarnir rísi ekki undir nafni. Menn nefna jafnvel að Háskóli Íslands teldist lítill í útlöndum. Mikið rétt, en aðstæður á Íslandi eru sérstakar. Við erum fámenn þjóð í stóru og erfiðu landi. En við sköpum okkur samfélag og búum um okkur í landinu í samræmi við getu okkar, þarfir og vonandi af því viti sem okkur er gefið. Við þurfum að gæta sanngirni og réttsýni þegar við fjöllum um málin en ekki aðeins að líta á arðsemi til skamms tíma.

Við þurfum auðvitað að bera okkur saman við erlendar þjóðir og aðstæður, það besta hverju sinni, af því að við stefnum hátt. En við megum ekki halda að ef eitthvað er svona eða hinsegin í útlöndum verði málum að vera komið fyrir á sama hátt hjá okkur, af og frá.

Við erum að tala um sameiningu háskóla. En við getum líka spurt: Hvað er háskóli? Ég er þeirrar skoðunar að hugmyndir allt of margra um háskóla séu staðnaðar. Menn sjá gjarnan fyrir sér gamla háskólann sinn, hús og fjölda fólks við nám, kennslu, samvinnu og samskipti, að ógleymdum rannsóknum. Þannig eru auðvitað margir háskólar en staðreyndin er sú að í dag getur maður setið við tölvu og stundað nám við háskóla sem er langt fjarri, jafnt í útlöndum sem á Íslandi, háskóla sem ekki einkennast af húsum og öðrum þeim þáttum sem ég rakti að ofan. Það er ekki nauðsynlegt að mæta á staðinn.

Við þetta fyrirkomulag tapast hin hefðbundnu og dýrmætu samskipti og samfélag sem nemendur og kennarar eiga saman en í staðinn venst nemandinn á enn sjálfstæðari vinnubrögð en við hefðbundið nám þar sem aðgangur að leiðbeinanda er greiðari. Íslenskir háskólar hafa gjarnan brugðist við hættunni á einsemd nemenda með því að skipuleggja samvistir annað slagið og með samskiptum um tölvuna. Háskóli er því ekki aðeins nafn á húsi fullu af fólki.

Að mínum dómi er það einnig misskilningur að háskóli geti ekki risið undir nafni nema hann sé stór. Hugtakið stór er reyndar afstætt. Til dæmis er enginn íslenskur háskóli stór ef borið er saman við ýmsa erlenda háskóla. En ég tel einmitt að litlir háskólar kalli gjarnan fram mikinn metnað, samheldni og frumkvæði starfsfólks og nemenda. Litlir háskólar leita leiða til að styrkja sig, t.d. með samvinnu við aðra háskóla, innlenda sem erlenda. Þeir eiga auðveldara með að aðlaga sig og auðveldara er að stjórna þeim en stórum háskólum. Við höfum einmitt dæmi um það á Íslandi þar sem háskólar skiptast á kennurum. Námskeið við einn háskóla eru metin til eininga í námi við annan háskóla. Meistara- og doktorsnemendur stunda rannsóknarvinnu sína undir faglegri leiðsögn starfsmanna við annan háskóla en þann sem þeir eru formlega skráðir í. Þarna höfum við frjóan jarðveg ekkert síður en við stóru skólana, að þeim þó ólöstuðum. Og með mörgum smærri háskólum erum við að auka líkurnar á því að sérstakar aðstæður nýtist, t.d. við rannsóknir og kennslu og jafnframt á því að þessar sérstöku aðstæður gætu nýst í atvinnulífi nútíðar og framtíðar. Við þurfum ekki að koma okkur upp aðstæðum heldur nýtum það sem fyrir er á staðnum. Reynslan sýnir að atvinnulífið á viðkomandi stöðum kemur mikla sterkar inn í samvinnu og stuðning við háskólann en líkur eru á að orðið hefði með þremur til fimm háskólum á landinu, svo að einhverjar tölur séu nefndar. Hætta á faglegri einangrun í litlu háskólunum er hverfandi nú á tímum þegar samskipti eru greið, hvort heldur er um veg eða í lofti eða hin rafrænu samskipti.

Ég verð að játa að þegar umræður um háskóla á Vestfjörðum komu fyrst upp var ég í fyrstu afar vantrúuð á hugmyndina, allt að því andsnúin henni. Mér fannst óskynsamlegt að koma upp háskóla þar, sérstaklega þar sem fyrstu hugmyndir virtust beinast að þeim greinum sem verið er að kenna í fjarnámi. Mér fannst í sannleika sagt að nóg sé komið af skólum sem bjóða kennara-, lögfræði- eða viðskiptamenntun. Ég tel sem sagt að við þurfum nýjungar í námsframboði.

En smám saman breyttust viðhorf mín og ég er nú eindreginn stuðningsmaður háskóla á Vestfjörðum. Mér finnst Vestfirðingar eiga skilið að fá þá grósku og innspýtingu í mannlífið og þá gleði sem fylgir uppbyggingu og starfrækslu háskóla á sama hátt og Eyfirðingar, Skagfirðingar, Borgfirðingar og íbúar höfuðborgarsvæðisins njóta háskólanna sem þar eru. Ég tala af reynslu því að ég hef reynt á eigin skinni þá breytingu á samfélagi sem uppbyggingu háskóla fylgir, fundið hvernig ný von vaknar í brjóstinu.

Hvers vegna skyldu Vestfirðingar ekki eiga skilið að fá sinn háskóla? Rökin sem hafa verið borin fram gegn því eru að það sé dýrt, skólinn verði of lítill, hann muni aldrei rísa undir nafni sem háskóli, hvað sem fólk á við með því, og fleira og fleira.

Í dag stunda 130 manns háskólanám á Ísafirði. Það eru fleiri nemendur en nokkru sinni í framhaldsskólanámi á Ísafirði og þeir munu væntanlega halda áfram námi, einkum ef þeim er gert það auðvelt með háskóla í grenndinni. Háskóli á Vestfjörðum mundi að sjálfsögðu ekki eingöngu þjóna Vestfirðingum heldur öllum þeim sem þangað vildu sækja og með spennandi og hagnýtu námsframboði þarf ekki að óttast að nemendur sæktu ekki vestur. Uppbygging háskóla á Vestfjörðum mildar einnig þá breytingu sem verður við styttingu námstíma til stúdentsprófs þar sem þá yrði hægt að stunda nám áfram í heimabyggð.

Það er dýrt að halda úti háskólum. En það er líka dýrt að smala fólki á örfáa staði á landinu ef það vill stunda nám. Dýrast af öllu er að haga málum þannig að fáir mennti sig, að 40% vinnuaflsins sé aðeins með grunnskólapróf eða minna, en þannig er málum einmitt háttað á Íslandi í dag. Og hlutfallið er ekki að breytast til batnaðar, hæstv. forseti, heldur þvert á móti. Það hlýtur að benda til þess að einhverju sé ábótavant í skólakerfi okkar.

Það má ekki leita skýringa eingöngu í kennurum, skipulagi og innihaldi námskrár. Menn verða einnig að spyrja sig að því hvort staðsetning og gerð skólastofnunar sé eins og best verður á kosið því að allt skiptir þetta máli. Ég vil líka að gefnu tilefni benda á að Ísafjörður er tilvalinn staður fyrir tækninám á háskólastigi, en a.m.k. sumir stjórnarliðar hafa lýst yfir vilja sínum til að koma á tækninámi í ríkisháskóla þannig að þeir einstaklingar sem áhuga hafa á tækninámi hafi val um hvort þeir borga há skólagjöld eða innritunargjald í ríkisháskóla. Á Ísafirði eru mörg mjög framsækin fyrirtæki á tæknisviði sem gætu hæglega stutt við nemendur í tækninámi auk þess sem þar er löng hefð fyrir verknámi á framhaldsskólastigi. Háskóli á Vestfjörðum yrði í samvinnu við aðra háskóla, innlenda sem erlenda, á svipaðan hátt og háskólinn á Hólum.

Ég hef engar áhyggjur af faglegum gæðum eða möguleikum til rannsóknarvinnu. Það er hvergi meiri metnað að finna en einmitt í stofnunum sem berjast fyrir tilveru sinni og þurfa að sanna tilverurétt sinn. Fjarnemendur hafa staðið sig ákaflega vel enda hefur samfélagið stutt vel við bakið á þeim, t.d. með góðri vinnuaðstöðu.

Frú forseti. Ég ætla svo að ljúka þessu með enn einni tilvitnun í umsögn Sigurðar Brynjólfssonar um leið og ég segi að ég vildi að ég hefði haft þessa umsögn undir höndum þegar ég átti orðastað við hæstv. menntamálaráðherra fyrir skemmstu um aðlögun framhaldsskólans að aukinni áherslu á verkfræði- og tæknimenntun á háskólastigi. Því miður þurfti hæstv. menntamálaráðherra að fara úr húsi í lögmætum erindum sem hún hefur gert grein fyrir.

Í samræðum okkar taldi hæstv. ráðherra að nægur fjöldi nemenda stundaði raungreinanám í framhaldsskólum og ekki þyrfti sérstaklega að leggja áherslu á að efla þær þó aukin áhersla væri á háskólanám í verkfræði og tæknifræði. Ég benti á að það sem áður hét eðlisfræðideild væri í raun nauðsynlegur undirbúningur fyrir verkfræðinema en á þeirri braut er krafist talsvert meiri stærðfræði- og eðlisfræðikunnáttu en á náttúrufræðibraut. Nemendur á eðlisfræðibraut hafa alltaf verið frekar fáir enda er hún talin erfiðasta námsleiðin til stúdentsprófs. Og þó nú sé búið að breyta um nafn á brautum í framhaldsskóla og breyta valfyrirkomulagi tel ég þá staðreynd óbreytta að fáir velja sér þyngstu stærðfræði- og eðlisfræðiáfangana og að sérstaks átaks og hvatningar sé þörf í framhaldsskólunum til að það breytist. Hæstv. menntamálaráðherra er því miður ekki sammála mér og taldi ekki þörf á því.

En Sigurður Brynjólfsson segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Nemendur með stúdentspróf og hafa fullnægjandi undirbúning í stærðfræði og raunvísindum eru ekki nægjanlega margir til að standa undir verkfræðinámi í tveimur skólum á Íslandi.“