Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 15:14:22 (5117)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:14]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Ég vil nú einmitt taka þetta dæmi sem hv. þingmaður Halldór Blöndal tók um stuðning fyrrverandi framkvæmdastjóra Verslunarráðsins við Hólaskóla sem dæmi um það að rekstrarformið skiptir auðvitað engu máli um það hvort menn vilji styðja skóla eða ekki. Ef menn vilja styðja við skóla og bera til hans hlýjan hug þá gera þeir það að sjálfsögðu óháð rekstrarformi. (Gripið fram í: Nú, en ekki einkahlutafélagi?)

Varðandi það hvaða afstöðu ég mundi taka gagnvart einkahlutafélagi um háskóla á Vestfjörðum þá held ég nú, hv. þingmaður, að miðað við meðaltekjur og stöðu fyrirtækja á Vestfjörðum þurfi ég ekki að velta því svo mikið fyrir mér á þessu stigi málsins því að núverandi ríkisstjórn og nokkrar ríkisstjórnir á undan henni hafa staðið þannig að málum að það er, því miður, allt á fallanda fæti á Vestfjörðum og ekki við því að búast að þar sé afl til að stofna til háskóla. Mér hefur satt að segja ekki sýnst heldur að fyrirtæki á suðvesturhorninu þar sem allir peningarnir eru fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar hafi áhuga á því að styðja við atvinnulíf eða aðra starfsemi á landsbyggðinni. (HBl: Kaupfélagið á Ísafirði var nú rekið af Alþýðuflokknum ...)

(Forseti (ÞBack): Ég vil áminna hv. þingmenn um að ávarpa hæstv. forseta en ekki beina orðum sínum til annarra þingmanna í salnum.)