Afnám laga um Tækniháskóla Íslands

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 16:08:12 (5133)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:08]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að við treystum þessum aðilum fullkomlega til þess að fara með stjórn skólans. En eins og ég kom líka inn á áðan viljum við að það sé gert í formi sjálfseignarstofnunar, ekki hlutafélagaforminu, vegna þess að við viljum tryggja það til framtíðar, auk þess sem við viljum að skólanum sé stjórnað með aðilum úr háskólasamfélaginu, þ.e. kennurum og nemendum. Við teljum algjört grundvallaratriði að þetta fari vel saman til að tryggja akademískt frelsi. En eins og ég sagði áður, ég lýsi því hér með yfir að ég treysti þessum aðilum fullkomlega til að reka skólann ágætlega en þó undir þeim formerkjum að það sé sjálfseignarstofnun og fulltrúar og aðilar í hinu akademíska samfélagi séu aðilar að stjórnun skólans.